Mun færri á fyrsta ári í lögfræði

80 nýnemar hófu nám á fyrsta ári í lagadeild Háskóla …
80 nýnemar hófu nám á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands í haust, mun færri en síðustu ár. mbl.is/Hjörtur

80 nýnemar hófu nám á fyrsta ári í lagadeild Háskóla Íslands í haust, mun færri en síðustu ár. Framkvæmd inntökuprófsins sem fór fram í upphafi sumars þykir hafa tekist vel til, enda var markmiðið að fækka í hópnum og fá betri nemendur inn í námið strax á haustönn.

Eyvindur G. Gunnarsson, forseti lagadeildar HÍ, segir að um 130 nemendur sitji námskeið fyrsta árs, en þar eru, auk nýnemaanna, um 50 nemendur sem taka fyrsta árið aftur. „Hugsunin er sú að eftir tvö ár verði hópurinn sem hefur nám í kringum 70 til 80 nemendur,“ segir Eyvindur í samtali við mbl.is

Um helmingi færri nemendur sitja því námskeið fyrsta árs í lögfræði í haust. Síðustu ár hefur hópurinn talið um 300 nemendur og því hefur til að mynda reynst erfitt að fá stofu fyrir kennslu og þá hefur tekið langan tíma að fara yfir próf nemendanna. Í haust fer kennsla nema á fyrsta ári fram í Háskólabíó en stefnt er að því að færa kennsluna alfarið í Lögberg innan fárra ára. 

Eyvindur segir að með fækkun nemendanna í kjölfar inntökuprófsins verði hægt að auka gæði kennslunnar, breyta og bæta kennsluaðferðir og fá betri nemendur inn í námið strax um haustið. Þá standa vonir einnig til þess að þetta nýja fyrirkomulag muni leiða til mun minna brottfalls úr deildinni.

Frétt mbl.is: Allir sem mættu í prófið komust inn.

Frétt mbl.is: Tæp­lega 200 reyna við laga­deild­ina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert