Engin mengun sjáanleg á strandstað

Mynd af strandstað -Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á fimmta tímanum …
Mynd af strandstað -Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á fimmta tímanum í nótt. Jens Dan Kristmannsson

Ekki er sjáanleg mengun frá flutningaskipinu Akrafelli sem strandaði undir Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar en unnið er að því að senda mengunargirðingar á staðinn frá bæjarfélögum á svæðinu.

Landhelgisgæslan hélt í morgun fund með fulltrúum Umhverfisstofnunar, Samskipa og Samhæfingarmiðstöðvar þar sem farið var yfir stöðuna vegna strands flutningaskipsins Akrafells. Talsverður sjór er í vél skipsins og hefur skipið misst allt vélarafl og rafmagn. Dælur hafa ekki undan og er unnið að því að útvega fleiri dælur.

Dráttartaug er komin í skipið frá Aðalsteini Jónssyni SU og er beðið átekta en flóð er á svæðinu um hádegið. Reiknað er með að varðskipið Ægir komi á staðinn eftir þrjár klukkustundir og tekur þá við dráttartaug og vettvangsstjórn á svæðinu sem er nú í umsjón björgunarskipsins Hafbjargar frá Neskaupstað. Ekki er vitað hvar lekinn er staðsettur en áætlað er að kafarar frá varðskipinu Ægi muni kanna botn skipsins, samkvæmt upplýsingum frá Hrafnhildi Brynju Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Næsti stöðufundur Samhæfingarstöð með Umhverfisstofnun og fulltrúum Samskipa er áætlaður kl. 13.30.

mbl.is