Spurt og svarað um ebólu

Helbrigðisstarfsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofunarinnar tilbúnir að takast á við faraldurinn og aðstoða …
Helbrigðisstarfsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofunarinnar tilbúnir að takast á við faraldurinn og aðstoða þá sem sýkst hafa af veirunni. AFP

Ebólu-veiran fer nú eins og eldur um sinu um lönd Vestur-Afríku og telja dauðsföll af völdum veirunnar nú tæplega 3.900 manns. Nýverið greindist í fyrsta skipti smit utan Afríkulanda eða á Spáni þar sem spænsk hjúkrunarkona smitaðist við umönnun sýktra hjálparstarfsmanna. Ekki er talin vera mikil hætta á ebólu-faraldri á Vesturlöndum en þó full ástæða til að glöggva sig nánar á veirunni sem veldur svo miklum skaða. 

Hvað er ebóla? Ebóla er veirusýking sem veldur alvarlegum veikindum sem leitt geta til dauða í 60% tilfella. Veiran kom fyrst fram árið 1976 og veldur sjúkdómi í mönnum og öpum. Talið er að ávaxtaleðurblökur séu einkennalausir berar veirunnar.

Hver eru einkenni ebólu? Byrjunareinkenni líkjast inflúensu og malaríu, þ.e. sótthiti, vöðvaverkir, þreyta, höfuðverkur, verkir í hálsi sem geta þróast í ógleði, uppköst, niðurgangur, magaverkir, útbrot með blæðingum frá húð, slímhimnum, augum, nefi, meltingarvegi og þvagrás og endað í fjöllíffærabilun.

Hver er tíminn frá smiti til veikinda? Meðgöngutími sýkingarinnar getur verið frá 2-21 dagur en flestir veikjast eftir 4-10 daga. Á þessum tíma er viðkomandi einkennalaus og smitar ekki.

Hvernig smitast ebólu veiran? Smit verður við snertingu við líkamsvessa eins og blóð, svita, munnvatn og þvag. Smit getur einnig orðið við neyslu á hráu og illa elduðum villtum dýrum, t.d. leðurblökum, antilópum, broddgöltum og öpum (bush meat) og við óvarin kynmök. Smitið er ekki loftborið.

Bera heimilisdýr veiruna með sér? Heimilisdýr geta smitast af veirunni. Ekki er þó gripið til sömu ráðstafana ef heimilisdýr smitast, t.d. af eigendum sínum eins og í tilfelli hunds spænsku hjúkrunarkonunnar sem var aflífaður á dögunum vegna mögulegs smits og áhættu á að hann smitaði aðra. 

Hvenær byrjar sýktur einstaklingur að smita? Sýktur einstaklingur verður fyrst smitandi þegar einkenni sjúkdómsins koma í ljós. Þó eru taldar litlar líkur á að hinn sýkti smiti fyrstu þrjá dagana eftir að einkennin gera vart við sig.

Hvenær er minnst áhætta á smiti? Þegar almenn umgengni er við einstakling sem er rólfær og sjálfbjarga en með hita. Sem dæmi má nefna að sitja í sömu biðstofu eða vera samtímis í almenningsvagni eða í móttöku.

Hvenær er mest áhætta á smiti? Þegar samskipti fela í sér mikla nálægð og snertingu við einstakling sem er með hósta, uppköst, niðurgang eða er með blæðingar frá húð, slímhimnum eða líkamsopnum. Einnig þegar ebólumengað blóð eða líkamsvessar, frá sjúklingi með staðfest ebólusmit eða er alvarlega veikur, berst með stunguóhappi gegnum húð, á slímhúð eða rofna húð eða mengun verður frá sýktum vefjum eða rannsóknarsýnum.

Hverjir eru í mestri smithættu? Heilbrigðisstarfsmenn og fjölskyldumeðlimir sjúkra, sem smitast við umönnun þeirra.

Lifir ebólu veiran eftir andlát sýktra? Ebólu veiran getur enn verið til staðar eftir andlát og þurfa heilbrigðisstarfsmenn því að hafa allan varann á við meðhöndlun látinna. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið út að brenna skuli lík sýktra strax eftir andlát þeirra til að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Í hvaða löndum hefur ebóla helst greinst? Ebóla hefur greinst í Vestur-Afríku. Fyrstu tilfellin greindust í Gíneu en veikin barst fljótt til Sierra Leone og Líberiu. Tilfellum fjölgar mjög hratt. Ebóla hefur þó aldrei áður greinst í Gíneu og telst því sérstakt að faraldurinn hafi byrjað þar í þetta skipti. 

Hefur ebólu faraldur brotist út áður? Ebóla hefur áður greinst í löndum Vestur-Afríku, þá aðallega í Úganda og Súdan en veiran fannst upphaflega í Lýðveldinu Kongó árið 1976. Fjöldi látinna er þó meiri núna en nokkru sinni fyrr. 

Eru aðgerðir á flugvöllum til að greina sýkta einstaklinga? Skimun farþega á flugvöllum veitir falskt öryggi að sögn Guðrúnar Sigmundsdóttur, staðgengils sóttvarnarlæknis. Niðurstöður skimunarinnar eru ekki óyggjandi þar sem einkenni geta komið fram síðar eða farþegi tekið hitastillandi lyf sem hylja einkennin. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur ekki séð ástæðu til að setja slíkar aðgerðir í gang utan Afríkulandanna þriggja þar sem smitið er mest, segir Guðrún.  

Getur ebóla borist með innfluttum vörum? Hætta á smiti með vörum sem innfluttar eru frá Vestur-Afríku eru hverfandi. Rannsóknir hafa sýnt að veiran drepst utan líkama við þurrk í herbergishita. Auk þess er afar ósennilegt að líkamsvessar frá sýktum einstaklingi lendi á vörum sem flutta eru út.

Hvernig er hægt að stöðva útbreiðslu smitsins? Hægt er að rjúfa smitleiðir og koma í veg fyrir smit með handhreinsun og notkun hlífðarbúnaðar, þ.e. hanska, hlífðarsloppa, grímu, hlífðargleraugu við umönnun sjúkra og í umgengni við þá sem eru látnir af völdum Ebólu. Með einangrun sjúkra og eftir atvikum sóttkví er einnig hægt að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. 

Er hægt að gera veiruna óvirka? Það er hægt með sápu, klór, sólarljósi og hita. Fatnað sem mengast hefur af líkamsvessum sýkts einstaklings er hægt að þvo í þvottavél og drepa þannig veiruna. Veiran getur lifað lengur í lágu hitastigi.

Er til lyf við ebólu veirunni? Þau lyf sem talin eru vinna gegn ebólu eru eingöngu á tilraunarstigi og því ekki framleidd í nægjanlegu magni. Ekki er því að treysta á virkni þeirra en tilraunalyfið Zmapp var gefið nokkrum sýktum einstaklingum og þrír þeirra lifðu en tveir þeirra létust. 

Hvað ber þá að gera ef smit á sér stað? Leita skal strax til læknis og einangra sig frá öðrum. Ofþornun er fylgifiskur ebólusmits og því skal drekka vökva sem inniheldur sölt eða setja vökva í æð. Ekki er enn ljóst hvað veldur því hverjir bera sigur úr býtum í baráttunni við veiruna og hverjir ekki, eins og fram kemur á vef BBC. 

Er áætlun hér á landi um hvernig bregðast skuli við ebólu-faraldri, brjótist hann út? Guðrún segir viðbragðsáætlun til staðar á Landspítalanum sem sé í stöðugri endurskoðun miðað við þær upplýsingar sem til eru á hverjum tíma um faraldurinn. Einnig hefur ebólu-teymi verið sett á fót sem tekur til starfa ef þörf er á. 

Á að forðast ferðalög til Spánar? Ekki er nein ástæða til þess að svo stöddu. Enginn faraldur hefur brotist út á Spáni í kjölfar smits spænsku hjúkrunarkonunnar á dögunum og hafa spænsk yfirvöld brugðist við með skjótum hætti og komið þeim í sóttkví sem gætu hafa smitast. „Brugðist var rétt við á Spáni og full ástæða til að ætla að þeir haldi smiti í skefjum,“ segir Guðrún og bætir við að auðveldara sé að bregðast við smiti þar sem heilbrigðisþjónusta sé góð og úrræðin til staðar ólíkt því sem viðgengst í þeim löndum Afríku þar sem faraldurinn geisar.

Sorgin er mikil í Líberíu þar sem skæður ebólufaraldur geisar …
Sorgin er mikil í Líberíu þar sem skæður ebólufaraldur geisar og fjöldi manns tapar baráttunni við veiruna á degi hverjum. AFP
Sjálfboðaliði í Sierra Leone gætir að eigin öryggi og klæðir …
Sjálfboðaliði í Sierra Leone gætir að eigin öryggi og klæðir sig í hlífðarbúnað við störf sín á meðal smitaðra. AFP
Sjálfboðaliðar spreyja á sig sótthreinsandi efnum eftir að hafa komist …
Sjálfboðaliðar spreyja á sig sótthreinsandi efnum eftir að hafa komist í tæri vð ebólusýkta einstaklinga. AFP
Mikilvægt er að þvo hendur með sápu eða nota sótthreinsandi …
Mikilvægt er að þvo hendur með sápu eða nota sótthreinsandi efni til að koma í veg fyrir smit. AFP
Gætt er að þvi að aðstandendur smitaðra fái sótthreinsandi meðferð …
Gætt er að þvi að aðstandendur smitaðra fái sótthreinsandi meðferð eftir að þeir koma með vini og vandamenn til aðhlynningar. AFP
mbl.is