Líst vel á styttri vinnuviku

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Frum­varp til breyt­inga á lög­um um 40 stunda vinnu­viku hef­ur verið lagt fram á Alþingi þar sem gert er ráð fyr­ir að vinnu­vik­an verði 35 dag­vinnu­tím­ar og sjö dag­vinnu­tím­ar á hverj­um virk­um degi í stað átta eins og lög­in kveða á um í dag.

Ólafíu Rafnsdóttur, formanni VR, líst vel á frumvarpið.

„Við höfum verið að gera kannanir meðal félagsmanna VR m.a. um þetta mál og þá hafa niðurstöðurnar verið skýrar og fólk vill stytta vinnuvikuna. Við komum síðan til með að spyrja um þetta í annarri könnun sem fer í gang fljótlega.“

Væri frábært að auka framleiðni og frítíma

Ólafía segir að ekki sé þó hægt að stytta vinnuvikuna ef það verði til þess að yfirvinna hefjist fyrr. „Það sem maður hefur áhyggjur af er að þegar VR fékk styttri vinnuviku í gegn á sínum tíma þá styttist hún í raun ekki heldur hófst yfirvinnan bara fyrr. Fékk fólk þá hærri laun í staðinn. En þessi hugsun snýst um það að fólk almennt stytti vinnuvikuna en auki framleiðni og frítíma og ef okkur tekst það væri það aldeilis frábært.“

Að sögn Ólafíu sést það í samanburði við löndin í kringum okkur að Íslendingar vinni óheyrilega langan vinnutíma.

Hún bætir við að nauðsynlegt sé þó að ef vinnuvikan verði stytt þurfi vinnuveitendur að taka þátt í breytingunum. „Það er hægt að skapa aukna framleiðni með styttri vinnutíma og hagræðingu í rekstri. En þá þurfum við að vera tilbúin að halda þessu báðum megin við borðið.“

Þurfa að hafa sæmileg laun

Að sögn Ólafíu ættu niðurstöður úr könnun meðal félagsmanna að koma innan tveggja vikna og mun félagið beita sér fyrir styttingu vinnuviku ef félagsmenn kjósa það.

„Stytting vinnuviku verður þó að vera þannig að fólk vinni styttri vinnutíma en sé samt líka með sæmileg laun. Ástæðan fyrir því að fólk er að vinna lengur er til þess að fá hærri laun. Það verður að þá greiða hærri laun fyrir styttri vinnutíma og hægt er að sjá fram á það með aukinni framleiðni,“ segir Ólafía að lokum.

Vilja að vinnuvikan verði 35 stundir

Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert