Bærinn lá í dvala

Höfn í Hornafirði
Höfn í Hornafirði mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mengun er mun minni á Höfn í Hornafirði nú en í síðdegis í gær og er skólastarf með eðlilegum hætti fyrir utan að börn fara ekki út í frímínútur og sundkennsla fellur niður, að sögn Huldu Laxdal Hauksdóttur skólastjóra. Hún segir að bærinn hafi legið í dvala í gær þegar mengunin var sem mest. 

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstofnun Suðausturlands hafði læknir samband við fólk sem glímir við sjúkdóma í öndunarfærum í gær en svo virðist sem allir hafi farið að tilmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra því ekkert alvarlegt tilvik kom upp. Fólk hefur heldur ekki leitað til læknis í dag vegna mengunarinnar sem lá yfir bænum í gær.

Núna mælist brennisteinsdíoxíðsmengun á Höfn í Hornafirði um 600 míkrógrömm á rúmmetra, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.

Að sögn Huldu tóku foreldrar tilmælum almannavarna vel og keyrðu börn sín til skóla í morgun en yfirleitt eru börn dugleg við að ganga og hjóla í skólann, segir hún. 

Hún segir að á laugardag hafi verið slökkt á öllum loftræstikerfum skólans til þess að dæla ekki menguðu lofti inn í húsið. 

Hulda segir að mengunin í gær hafi verið sú mesta hingað til og allir fundið fyrir henni enda hafi bærinn verið í dvala seinnipartinn. Mengunin var bæði sýnileg og finnanleg ef farið var út úr húsi. Hún segir að íbúar á þessu svæði búi við það mikil tengsl við náttúruna að fólk geri sér alveg grein fyrir því að það er hún sem ræður og ekki þýði að æsa sig yfir menguninni sem herjar á íbúa á Suðausturlandi.

Í gær sendu almannavarnir út viðvaranir til íbúa á Höfn vegna mengunarinnar en mengunarmælar sýndu að styrkur SO2 væri á bilinu 9.000-21.000 míkrógrömm á rúmmetra síðdegis í gær.

Ef mengun er mikil og fólk finnur fyrir óþægindum jafnvel þótt það dvelji innandyra er hægt að grípa til ráðstafana til að draga úr styrk mengunar innanhúss með því að útbúa einfaldan hreinsibúnað. 

  1. Takið 5 g af venjulegum matarsóda og leysið upp í 1 l af vatni.
  2. Bleytið einhvers konar klút, t.d. viskastykki, þunnt handklæði eða gamaldags gasbleiu í þessari lausn. 
  3. Vindið mesta vatnið úr þannig að ekki leki vatn úr. 
  4. Festið þennan raka klút upp á einhvers konar grind, t.d. þurrkgrind fyrir þvott, og festið á öllum hliðum t.d með þvottaklemmum. 
  5. Stillið grindinni upp í því herbergi sem ætlunin er að hreinsa loftið í. 
  6. Til að klúturinn haldi virkni sinni þarf hann að vera rakur og gott er að halda rakastiginu við með því að úða á hann vatni t.d. úr blómaúðabrúsa. 
  7. Til að auka virknina er gott að láta borðviftu blása á klútinn. ATH! viftan er rafmagnstæki, gætið þess að raki úr klútum eða frá úðabrúsanum komist ekki í viftuna. Viftan þarf að standa í öruggri fjarlægð frá klútnum, ekki nær en um það bil tvo metra. Alls ekki breiða klútinn yfir sjálfa viftuna. 
  8. Ef vifta er ekki til staðar gerir klúturinn samt gagn sérstaklega ef honum er komið fyrir nálægt ofnum, en loftflæði er meira við ofna en aðra staði í íbúðinni. ATH! Ekki er þörf á að breiða klútinn yfir ofninn, nóg er að hann standi á grind við hliðina á ofninum. Gætið varúðar við rafmagnsofna, aldrei má hindra loftflæði að þeim eða breiða neitt yfir þá. 
  9. Ef langvarandi mengun er til staðar þarf að skola klútinn undir rennandi vatni tvisvar á dag og setja hann aftur í matarsódalausnina.
  10. Slökkva á loftræstikerfum.

Að auki er gagnlegt að skrúfa frá kaldri sturtu og hafa sturtuklefann og baðherbergisdyrnar opnar. Þessi aðferð hjálpar til við að hreinsa loftið.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var ekki gefin út sérstök viðvörun til dýraeigenda á Suðausturlandi í gær vegna mengunarinnar en á vef stofnunarinnar er að finna leiðbeiningar til dýraeigenda varðandi mengun frá eldgosinu í Holuhrauni.

mbl.is