Veðurfar aldanna - Ragnar Axelsson

Inni í opinu standa menn.
Inni í opinu standa menn. mbl.is/RAX

Þar sem ísinn rymur er sérblað sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 31. október. Þar segja Ragnar Axelsson (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Grænland í máli og myndum.

Myndirnar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylgir fréttinni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og myndbrot úr ferð þeirra.

Hægt er að nálgast blaðið í pdf-útgáfu neðst í þessari grein. Til að sjá myndirnar á sem bestan hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjalinu í einu.

Veðurfar aldanna

TEXTI OG LJÓSMYNDIR: Ragnar Axelsson - rax@mbl.is

Þokan læðist eftir haffletinum þar sem hvítir ísrisar fljóta um þúsund metra djúpan fjörðinn. Fjallstindar tróna hátt til himins fyrir ofan eikarbátinn Hildi, sem siglir á milli ísjakanna í þröngum firðinum. Hörður Sigurbjarnarson skipstjóri er öryggið uppmálað þar sem hann siglir milli jakanna og fylgist með hverjum og einum þeirra. Sumir minni jakarnir mara í kafi, það er ekki gott að sigla á þá. Tindar fjallanna teygja sig upp í tvö þúsund metra hæð. Það rofar annað slagið til í þokunni; þá koma tindarnir í ljós en hverfa síðan fljótt aftur. Þessir skörðóttu tindar eru nokkur hundruð milljóna ára gamlir.

Fjallshlíðarnar verða eins og lagterta þar sem þokan teiknar hvítar lá­réttar línur í bergveggina sem hverfa nánast lóðrétt niður í hafið. Drunur heyrast úr þokunni, risastór borgarísjaki er að bylta sér. Einungis einn tíundi hluti jakans stendur upp úr sjónum þar sem hann rymur háum rómi í miðjum firðinum.

Jakinn veltist fram og til baka í smástund. Það er eins og hann sé að virða okkur fyrir sér, svo róast hann og drunurnar hætta. Íshröngl leggur út frá jakanum og flýtur í sjónum, það hefur hrunið úr einni hlið jakans sem breytti jafnvægi hans. Þessir hvítu risar eru eins og lifandi skúlptúrar í einhverju fallegasta galleríi á jörðinni. Jakarnir eru misstórir og ótrúlega tignarlegir, sumir eru eins og heiðbláir risademantar. Ef ímyndunaraflinu er gefinn laus taumur má sjá alls kyns kynjaverur í ísnum. Það er eins og þær séu í álögum þar sem þær stara út úr ísveggjunum.

Gæti heyrt sögunni til

Höfin geyma 97,5% alls vatns á jörðinni. Heildarmagn ferskvatns á jörðinni er um 2,6%. Jöklar heimsins geyma 2,1% af öllu vatni jarðar, 80% alls ferskvatns, og eru því stærsta forðabúr ferskvatns á hnettinum. Ísjakarnir sem fljóta um fjörðinn eru snjór sem féll á jökulinn fyrir um þúsund árum; þeir bráðna nú hratt í heimshöfin þar sem hringrás vatnsins heldur áfram í sinni endalausu för. Vatnið er hringrás og lykill lífsins á jörðinni. Í jöklunum eru upplýsingar um veðurfar aldanna, eldsumbrot og lífið á jörðinni, hundruð þúsunda ára aftur í tímann. Vatnið er eitt samfélag sem ferðast um jarðkringluna með haf­straumum, ám og vötnum.

Það er stórkostlegt að virða fyrir sér jakana fljóta í hafinu, en velta því um leið fyrir sér að einhvern tíma í framtíðinni gætu ísjakar og jöklar heyrt sögunni til og aðeins verið til á myndum. Það er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunnar.

Þessir hvítu risar, eins tignarlegir og þeir eru, geta verið stórhættulegir. Brotni úr þeim stór ísstykki og falli í hafið geta myndast flóðbylgjur sem gera mestan usla þegar þær skella á land. Hvolfi borgarísjaka er ekki gott að vera of nálægt, það getur verið hættulegt á litlum opnum bátum.

Dæmi eru um að veiðimenn á litlum bátum hafi horfið í hafið þegar borgarísjökum hvolfdi yfir þá. Sumir hafa aldrei fundist. Heimspressan er ekki að missa sig yfir því og það er sjaldgæft að fréttir af atburðum norðurslóða rati á þær síður.

Við erum nokkrir félagar frá Íslandi og Bandaríkjunum að fræðast um þessa nánast ósnortnu undraveröld Grænlands. Tilgangurinn er að rannsaka, fræðast og kvikmynda þennan undraheim landsins og fólksins og gera heimildarmynd um norðurslóðir, fortíð þeirra og framtíð. Borgarísjaki sem er um hundrað metra hár og töluvert hærri en Hallgrímskirkja, með risagati í miðjunni, togar í okkur.

Við siglum meðfram honum og horfum agndofa á þessa fegurð; þessi tignarlegi jaki á fáa sína líka í firðinum. Gatið í miðjunni er sennilega svelgur sem hefur myndast þegar leysingavatn hefur runnið sem stórfljót eftir jöklinum og grafið göng niður í hann. Nú hefur þessi þúsund ára gamli ísklumpur brotnað frá jökulstáli Grænlandsjökuls og fallið í hafið, þar sem hann mun fljóta um einhvern tíma og að lokum bráðna.

Það er eitthvað sérstakt við þennan jaka, hann virðist sterkur og traustur þó að aldrei sé hægt með vissu að treysta á að svo sé. Aðrir jakar í nágrenninu eru ekki eins áreiðanlegir. Ísinn í þeim er morknari að sjá og sumir líta út fyrir að geta brotnað hvenær sem er. Eftir að hafa skoðað jakann vel er ákveðið að stíga á land og klífa upp í gatið. Við siglum yfir ljós­bláum ísnum sem marar í kafi og lendum við brún jakans sem stendur upp úr sjónum.

Kynjaverur fylgjast með

Það er sérstök tilfinning að horfa ofan í ljósbláan ísinn rétt undir gúmmíbátnum. Stærsti hluti ísjakans er í kafi, við erum að sigla yfir þeim hluta. Það er ekki hættu­laust. Þeir félagar Heiðar Guðjónsson og Hans Humes stökkva upp á flughálan ísinn og ganga á broddum í áttina að gatinu. Við hinir róum frá jakanum á gúmmíbátnum, siglum í kringum jakann og myndum þá þar sem þeir standa í gatinu. Þeir verða agnarsmáir þar sem þeir standa á jakanum, stærðarhlutföllin tala sínu máli. Það er frekar ólíklegt að honum hvolfi eða hann brotni á sama tíma og við erum við jakann.

Það er eins og kynjaverurnar í ísnum fylgist með þeim félögum þar sem þeir spígspora um heimkynni þeirra. Hálft andlit í prófíl hægra megin í gatinu virðist gefa þeim auga og þefa af þeim þar sem nefið teygir sig til þeirra, aðeins efri hluti andlitsins er upp úr ísnum. Það þarf stáltaugar til að standa á fljótandi borgarísjaka og ekki er þorandi að staldra lengi við þó að þessi jaki sé traustari en aðrir jakar.

Það var viss léttir að sigla frá jakanum með þá félaga, svolítið eins og að hafa stigið fæti á tunglið. Heiðar og Hans hafa ýmsa hildi háð við náttúruöflin; klifið tinda og skíðað hæstu fjöll Grænlands í 40 gráðu frosti. Samt eru þeir að klífa borgarísjaka í fyrsta skipti. Að standa á borgarísjökum er nokkuð sem menn ættu ekki að stunda á hverjum degi en á móti kemur að heimurinn þarf að fá að sjá mikilfengleika norður­slóða og skynja smæð mannsins í samhengi við náttúruna og þessa ísrisa sem bráðna nú hratt.

Ekkert í lífinu er hættulaust og stundum þarf að leggja á sig eitthvað umfram það venju­lega til að ná fram áhrifum sem fá fólk til að hugsa og velta raunveruleikanum fyrir sér. Raunveru­leika sem er á undanhaldi í daglegu lífi fólks. Það þarf alltaf að leggja eitthvað á sig til að komast þangað sem menn ætla sér. Á hvaða sviði lífsins sem er.

Ógn fyrir heiminn

Á norðurslóðum er mikið að gerast sem er fjarri venjulegu lífi stórborganna en gæti skipt máli fyrir framtíð fólks á jörðinni. Þar er bæði ógn fyrir heiminn þegar ísinn bráðnar og yfirborð heimshafanna hækkar. Þar eru einnig tækifæri sem maðurinn mun nýta sér þegar siglingaleiðir norðurslóða opnast.

Staða sjávar mun breytast á jörðinni haldi jöklarnir áfram að bráðna. Strandlengja Grænlands mun lengjast, einnig á Íslandi þar sem Grænlandsjökull virkar eins og segulstál á hafið og togar það til sín allt að sjöhundruð kílómetrum úti frá landi. Á öðrum stöðum á jörðinni mun sjávarborð hækka og sum lönd eiga einfaldlega á hættu að sökkva, til dæmis Maldíveyjar. Flestir eiga fjölskyldur, börn og barnabörn.

Gæti verið að þeirra bíði erfiðleikar sem hægt væri að afstýra með réttum ákvörðunum í dag? Þykir ekki öllum vænt um börnin sín og barna­börnin? Eru menn tilbúnir að gefa sér að allt sé í lagi þegar 97% vísindaheimsins segja annað? Eru leiðtogar heimsins tilbúnir að gera afkomendum sínum það að berjast við eitthvað sem ekkert verður ráðið við síðar? Eitthvað sem þeir hefðu getað afstýrt?

Það hefur hlýnað og kólnað á víxl á jörðinni af náttúrulegum orsökum. Allt ­hefur þetta gerst áður með einhverjum hætti. Milankovitch-kúrfan, sem sýnir þróun loftslags á jörðinni mörg hundruð þúsund ár aftur í tímann, sýnir í fyrsta skipti að koltvíoxíðkúrfan er komin fram úr hitakúrfunni.

Reglan hefur verið sú að það hitnar og koltvíoxíðkúrfan eltir hitakúrfuna en nú er hún komin fram úr hitakúrfunni, sem gefur til kynna að við mengum of mikið. Jarðarbúar eru um sjö milljarðar í dag og verða líklega orðnir um tíu milljarðar eftir nokkur ár. Það þarf að brauðfæða allt þetta fólk og því fylgir óhjákvæmilega mengun.

Allir sem um þessi mál fjalla verða að fara að hugsa sinn gang og taka ákvarðanir sem skipta máli fyrir alla jarðarbúa, líka þeir sem eru á þeirri skoðun að þetta reddist og ekkert sé að. Ábyrgð þeirra allra er mikil. Vísindamenn segja að tíminn sé naumur, aldrei hafi verið meiri koltvísýringur í andrúmsloftinu á jörðinni og stórar holur séu farnar að myndast í sífreranum í Síberíu sem geymir metangas sem streymir út í andrúmsloftið og er enn hættulegra en koltví­sýringurinn.

Eldgos spila sitt hlutverk. Hver eru áhrif þeirra á loftslag heimsins? Hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á hlýnun og breytingum á loftslagi á jörðinni hlýtur öllum að vera ljóst að jörðin verður að njóta vafans, við eigum ekki kost á öðru. Við eigum ekkert annað heimili.

Tæknin tekur yfir

Skiptar skoðanir eru um hvort eða hvernig eigi að nýta auðlindir norðurslóða. Grænlendingar vilja sjá nýtt Grænland og nýta þá möguleika sem þeir hafa. Veiðimannasamfélagið er á undanhaldi í þeirri mynd sem það hefur verið um aldir. Ar­fleifð Grænlendinga sem veiðimannasamfélags er merkileg en allt er breytingum háð. Veiðimennirnir horfa til þess sem koma skal af æðruleysi þegar ísinn verður of þunnur til að stunda veiðar eins og þeir hafa gert í 4.000 ár. Tæknin tekur yfir með nýjum tækifærum.

Í siglingu um Scoresbysund og í kringum Milne-land eru hraustir og veraldarvanir menn sem þekkja af eigin raun hættur víða um heiminn og í óbyggðum Grænlands, bæði að vetri og sumri. Fjölbreytt flóra úr ýmsum greinum atvinnulífsins, vísindum, hagfræði, fjárfestingum, kvikmyndaframleiðslu, kvikmyndatöku og leikstjórn, ljósmyndun, sjómennsku, hótelrekstri og öðrum atvinnurekstri smellpassar í þessa ævintýraferð.

Áhöfnin er ekki af verri endanum, það eru ekki vandamál í þessum báti. Það sem okkur dettur í hug að gera, það gerum við. Daglegt sjósund í eins til tveggja gráða köldum sjónum herðir menn og þéttir hópinn. Menn stinga sér í sjóinn hver á eftir öðrum og synda í smá stund. Það er eins og líkaminn vakni og ekki er laust við að aukaorka leysist úr læðingi eftir sundið. Allir eru á verði, hver fyrir annan, ef eitthvað kæmi fyrir í sundinu. Fyllsta öryggis er gætt og enginn er of lengi í sjónum; hitastig sjávar leyfir það ekki.

Eins og gengur í lífinu eru ekki allir með sömu skoðanir á málunum. Það er fróðlegt að hlusta á skoðanir sem víkka sjóndeildarhringinn og auka þekkingu allra um borð. Það er ekki ónýtt að fá fyrirlestra á skútunni á hverju kvöldi frá færustu mönnum í heiminum, um jarðfræði og sögu Grænlands, milljarða ára aftur í tímann og yfir í hagfræði og efnahagsmál og tækifærin sem þar liggja. Menn skeggræða um framvindu mála á norðurslóðum og velta fyrir sér afleiðingum hlýnunar og tækifærum sem óhjákvæmilega verða til þegar Grænlandsjökull og heimskautaísinn bráðna.

Dagarnir hreinlega fljúga áfram. Allir um borð upplifa á hverjum degi eitthvað nýtt í undraheimum Grænlands. Morgunleikfimin um borð felst í því að draga upp akkeris­festarnar, um sextíu metra af keðju eftir því hvað dýpið er mikið þar sem skipið liggur. Sumir gantast með að hafa farið á fætur á undan öðrum til þess að fæla ísbirni frá skipinu svo allir væru öruggir þegar þeir kæmu upp á dekk.

Fallegir ísbirnir

„Öryggið verður að vera í fyrirrúmi,“ segir Ingvar Þórðarson kvikmyndaframleiðandi glottandi og bætir svo við: „Þetta voru mjög fallegir ísbirnir sem ég rak á flótta. Annar var sérstaklega stór, það var ekki þorandi að sýna ykkur hann.“

Svefndrukkin andlit átta sig ekki strax á því hvort ísbirnir hafi verið á sveimi en gera það á endanum. Hver hefur ekki gaman af smá sprelli? Það gerir dagana bara skemmtilegri.

Hafragrautur og lýsi í morgunmat! Það vantar ekki að Róbert kokkur er kominn á fætur á undan öllum með allt klárt. Þannig er það alla daga í ferðinni.

Jarðfræðin er skoðuð á Rauðueyju og fleiri stöðum. Þar eru merkilegir berggangar sem eru svipaðir þeim sem eru að myndast neðanjarðar í eldgosinu á Íslandi í dag. Haraldur Sigurðsson, prófessor í jarð- og eldfjallafræði, er í essinu sínu og notar hamar­inn óspart við að brjóta grjót og sjá hvað það hefur að geyma.

Skriðjökull gengur í sjó fram þar sem jökulstálið slútir fram, það getur fallið í sjóinn á hverri stundu. Sums staðar í hlíðum fjallanna má sjá gil og skriður þar sem jökullinn hefur hopað. Litlar steinvölur þeytast niður brattar hlíðar jökulsins þar sem hann hefur rutt upp grjótöldu í fjöruborðinu. Hafa þarf varann á og fylgjast með þegar rúllandi steinar koma þjótandi. Óskar, Heiðar og Hans ganga á jökulinn, sem er mikið sprunginn. Þokan skríður í fjallshlíðinni fyrir ofan þá og teygir sig til þeirra félaga, sem verða agnarsmáir þar sem þeir spígspora um jökulinn.

Inni í firðinum rekumst við á mannvistarleifar Inúíta. Það er fyrir tilviljun að við finnum rústir af mannabústað sem eru vart sjáanlegar lengur. Haraldur Sigurðsson og Hörður Sigurbjarnarson skipstjóri ákveða að sigla í land þar sem Haraldur telur að Inúítar hafi haft búsetu fyrr á öldum. Hann er vanur að finna gamlar rústir og byggðir á eldfjallaeyjum. Gengið er á land og leitað, Haraldur gengur um og rannsakar við fjöruborðið og upp í hlíðar fjallsins. Ingvar Þórðarson mundar riffilinn, tilbúinn að verja hópinn geri ísbirnir vart við sig. Ingvar hefur marga fjöruna sopið á lífsins leið – ekkert fer framhjá honum! Hann er með augu veiðimannsins.

Er þetta ekki hús?

„Nei, er þetta ekki hús?“ hrópar Diddi skipstjóri, aflakló til margra ára, og bendir á grastóftir með hlöðnu grjóti. Það var ekki auðvelt að sjá rústirnar, sem voru fallnar og orðnar hluti af landslaginu. Það lítur út fyrir að þangað hafi enginn komið áður eða áttað sig á því að þarna séu rústir af bústað manna. Morkið og veðrað bein með gati stendur út úr veggjatóftinni, gæti verið úr kajak. Beinið er fjarlægt varlega til aldursgreiningar. Annað er látið vera, fornleifafræðingar eiga greinilega eftir að koma á staðinn.

Talið að Inúítar hafi komið á þessar slóðir fyrir meir en þúsund árum. Gætu rústirnar verið svo gamlar? Aldursgreining á beininu mun leiða það í ljós.

Sennilega eru þessar rústir af hlöðnu grjóthúsi frá því fyrir litlu ísöldina , sem hófst í kringum 1400. Áin hefur hugsanlega rutt burt hluta af litlu þorpi eða húsaþyrpingu þegar hún hefur ruðst fram í leysingum, en húsið er rétt við ána þar sem hún fellur í sjóinn. Fallegt útsýni hefur verið úr kofanum þar sem fjallasalurinn gnæfir yfir fjörðinn og veiðilendur Inúítanna. Hvað varð um fólkið veit sennilega enginn, líklegt er að þarna hafi það borið beinin. Það er nokkuð ljóst að fáir hafa komið í land á þessum stað.

Á öðrum stað í firðinum eru setlög frá júratímabili jarðsögunnar, þar eru steingervingar sem eru yfir hundrað og fimmtíu milljón ára gamlir. Það er spenna í loftinu. Munum við finna spor eftir risaeðlur sem spígsporuðu um á þessum slóðum fyrir hundrað og fimm­tíu milljón árum? Fundist hafa spor við flugvöllinn Constable Point. Ekki finnum við risaeðluspor í þessari ferð en kuðungar eru í steinum, steingerðir, hundrað og fimmtíu milljón ára gamlir.

Haraldur var ekki lengi að finna steingervinga. Það virðist vera sérgrein hans að finna eitthvað sem enginn sér, eins og þorp sem hvarf í eldgosinu á Tambora. Haraldur á ótrúlegan feril sem vísindamaður og hefur margoft lent í svipuðum aðstæðum og Indiana Jones.

Við rannsóknarstörf á Haítí, þar sem Haraldur og aðstoðarmenn hans, Steve Carey og Steve D’Hondt, voru að rannsaka 65 milljón ára gömul setlög, voru þeir eltir af mönnum með sveðjur sem tortryggðu vinnu þeirra sem vísindamenn. Setlögin á Haítí höfðu að geyma glerperlur, þær einu á jörðinni sem hafa varðveist, og sönnuðu við efna­greiningu hvernig risaeðlunum og meirihluta lífríkis jarðar var útrýmt.

Gler­perlurnar voru úr stóru sprengingunni fyrir 65 milljón árum þegar 10 kílómetra breiður loftsteinn skall á Yucatan-skaga í Mexíkó, sennilega versta stað sem hann gat lent á á jörðinni. Hefði loftsteininn lent í sjónum væru risaeðlurnar enn ríkjandi á jörðinni. Myrkur og fimbulkuldi var um alla jörð í nokkur ár eftir sprenginguna og nýjar tegundir dýra urðu til. Eldfjall á Íó, einu tungla Júpíters, heitir í höfuðið á Haraldi og er það vel við hæfi. Mættust þeir félagar Haraldur og Indiana Jones á götu er ekki ólíklegt að sá síðarnefndi myndi hneigja sig fyrir Haraldi!

Það er viss söknuður að sigla út úr firðinum, þessum kynngimagnaða heimi óbyggða sem á fáa sína líka á jörðinni. Ittoqqortoormiit, þorp í mynni fjarðarins, þar sem allir sem eftir eru á svæðinu búa, telur um 400 manns. Þetta er eitt afskekktasta þorp á Grænlandi og nálægasta þorp er á Íslandi. Hver framtíð þorpsins er ekki vitað verður, sumir vilja leggja það í eyði en heimamenn vilja búa þar áfram. Sárafáir milli þrítugs og fimmtugs eru í þorpinu, er okkur sagt.

Konu bjargað úr brennandi húsi

Bjalla hringir og fjórhjól kemur eftir veginum á hraðferð, það er slökkviliðið. Kviknað er í húsi. Konu er bjargað úr brennandi húsinu út um glugga á þakinu. Fólk úr þorpinu drífur að og horfir á þar sem slökkviliðsmenn ná að kæfa eldinn. Konan er leidd á braut sótsvört af reyk. Líklega hefur kviknað í út frá sígarettu.

Lítið þorp, Kap Hope, er yfirgefið. Hauskúpa af sauðnauti er eins og tákn fyrir auðn, húsin eru sum að hruni komin. Spor eftir ísbjörn er í fjörusandinum og bátur hefur grafist í sandinn. Sjórinn er að brjóta hann.

Við lendum í þorpinu á gúmmíbátnum, sem fyllist af sjó í briminu. Sumir falla í sjóinn. Allir eru orðnir rennandi blautir, samt er gengið um þorpið og skoðað. Dapurlegt er að sjá þorpið drabbast niður.

Veðrið er að herða. Haustlægðirnar eru byrjaðar að tala sínu máli, vindurinn gnauðar, það er stutt í veturinn. Átta menn í litlum gúmmíbát sigla frá yfirgefnu þorpinu, við erum komnir út á ballarhaf þar sem skútan bíður eftir okkur. Það er þögn í gúmmíbátnum sem skoppar á öldunum, hver hugsar sitt.

Ljóst er að allir eru sáttir við þessa ævintýraferð sem enginn mun gleyma. Margt var að sjá í viku siglingu um einhvern magnaðasta fjörð sem hægt er að hugsa sér. Síðustu klukkutímana virðum við fyrir okkur risavaxna borgarísjaka fljóta í mynni fjarðarins, þeir munu fljótlega frjósa fastir. Þorpið fær nýtt útsýni á hverjum vetri með nýjum jökum. Ísjakarnir fá að vera jakar í einn vetur en svo bráðna þeir þegar vorar á ný.

Takið eftir fólkinu í neðra vinstri fjórðungi til að sjá …
Takið eftir fólkinu í neðra vinstri fjórðungi til að sjá stærðina á ísbreiðunni. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina