Bjarni nýr framkvæmdastjóri SASS

Bjarni Guðmundsson.
Bjarni Guðmundsson. Rósa Braga

Bjarni Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Hann tekur við stöðunni um áramót. 

Bjarni gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra þróunar hjá RÚV frá árinu 2007 til 2014 en hann lét af þeim störfum í vor. Þar sinnti hann m.a. stefnumótun og samningagerð, stýrði faghópi varðandi fjármál félagsins og bar ábyrgð á starfsmannamálum RÚV til ársins 2010. Jafnframt kom hann að undirbúningi og gerð fjárhagsáætlunar ásamt frágangi ársreikninga. Á þessu tímabili sat Bjarni jafnan fundi með stjórn og framkvæmdastjórn RÚV ásamt því að sinna daglegri stjórnun á skrifstofu útvarpsstjóra, segir í fréttatilkynningu.

Frá 1997 til 2007 gegndi Bjarni starfi framkvæmdastjóra sjónvarps og var hann staðgengill útvarpsstjóra frá árinu 1998. Þar bar hann m.a. ábyrgð á framkvæmda- og rekstraráætlunum, sat fundi með Útvarpsráði og framkvæmdastjórn og sinnti daglegri stjórnun. 

Bjarni var rekstrarráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf frá 1996 til 1997 þar sem hann kom m.a að stefnumótun fyrirtækja og stofnana, hann var markaðsstjóri Íslenskrar Getspár frá 1994 til 1996 og framkvæmdastjóri Gulu línunnar frá 1992 til 1994. Bjarni hefur jafnframt setið í hinum ýmsu stjórnum. 

Bjarni lauk MBA gráðu frá Edinborgarháskóla árið 1992, B.Sc gráðu í rafmagnstæknifræði frá Tækniháskólanum í Óðinsvéum árið 1985 og rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1980. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert