Kveikt í bíl kertagerðarmannsins

Aðkoman var ekki snotur.
Aðkoman var ekki snotur.

Trillukarlinn Jón Elíasson vaknaði upp við vondan draum laust eftir miðnætti í nótt þegar lögreglan hringdi í hann og tilkynnti honum að kveikt hefði verið í bíl hans.

„Það var auðséð að það hafði verið brotist inn í hann,“ segir Jón. „Það var ekkert merkilegt tekið svo sem. Ein snjóskófla er horfin og svo var ég með geisladiskarekka milli sætanna. Það var búið að taka eitthvað af diskunum og setja rest í framsætið svo það sást vel að það hafði verið rótað eitthvað í honum áður en kveikt var í,“ segir Jón. Hann gerir ekki ráð fyrir að fá mikið út úr tryggingum enda þótt bíllinn hafi verið í góðu standi enda var hann orðinn 15 ára gamall.

Engin vitni virðast virðast hafa verið að íkveikjunni. Fleiri bílar voru á bílastæðinu en enginn þeirra var nálægt bíl Jóns en flakið af honum var dregið burt í morgun.

Sjálfboðaliði í óþverra vinnu

Jón er kertameistari Fjölskylduhjálpar Íslands og hafði í gær steypt um 4.800 kerti til styrktar góðum málstað. Eins og fram kemur á baksíðu Morgunblaðsins í dag, í umfjöllun um Kærleiksljós Fjölskylduhjálpar, eru þetta fimmtu  jól Jóns í sjálfboðaliðastarfi fyrir Fjölskylduhjálpina en bíllinn stóð einmitt á bílastæði félagsins þegar kveikt var í honum.

Jón hóf fyrst að steypa kerti úr mör fyrir jólin í fyrra. „Við erum í hinu og þessu og skiptum  á milli okkar verkum en þegar við fórum út í kertaframleiðsluna vildi enginn vera í henni, því þetta er óþverravinna með mikilli fýlu þegar mörinn er bræddur. Ég festist í þessu og hef fengið hjálparkokka dag og dag eða hluta úr degi.“

Jón vinnur óeigingjarnt starf en virðist ekki hafa fengið það góða karma sem hann átti skilið. Eigi einhver auka bíl að lána eða gefa Jóni er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Fjölskylduhjálp.

Jón við kertaframleiðslu.
Jón við kertaframleiðslu.
mbl.is