Skaut upp sjónauka á nýársnótt

SPIDER tilbúinn til að stunda vísindi á nýársdag.
SPIDER tilbúinn til að stunda vísindi á nýársdag. Jón Emil Guðmundsson

Flestir skjóta upp flugeldum á nýársnótt en stjarneðlisfræðingurinn ungi, Jón Emil Guðmundsson, skaut frekar upp sjónauka sem á að rannsaka upphaf alheimsins. Hann og félagar hans við Princeton-háskóla hafa verið á Suðurskautslandinu undanfarna tvo mánuði við að undirbúa SPIDER-sjónaukann. 

Sjónaukinn var sendur á loft kl. 16:59 að staðartíma Suðurskautslandsins á nýársdag, kl. 03:59 að íslenskum tíma. Jón Emil hefur verið á Suðurskautslandinu frá 28. október við undirbúning tilraunarinnar. Tilgangur hennar er að rannsaka ljós örbylgjukliðsins svonefnda. Hann er bakgrunnsgeislun sem fyllir allan alheiminn og er nokkurs konar endurómur frá Miklahvelli, upphafi alheims okkar. Niðurstöðurnar geta varpað frekara ljósi á tilvist þyngdarbylgna sem afstæðiskenning Alberts Einstein spáði fyrir um. 

Svaf af sér áramótin

Dagana á undan hafði SPIDER-teymið beðið eftir því að veðuraðstæður yrðu hagstæðar svo hægt yrði að senda sjónaukann á loft með helíumloftbelg. Eftir síðustu prófanirnar á gamlársdag breyttist veðurspáin skyndilega þannig að ljóst var að mögulegt væri að senda sjónaukann á loft á nýársdag.

„Minn hópur hófst strax handa við að fylla kuldahaldið með 1200 lítrum af fljótandi helíum, átta klukkustunda verkefni, á meðan aðrir kepptust við að bera álhúðuð límbönd á bera fleti eða lagfæra „síðustu“ villurnar í flugkóðanum. Eini tíminn fyrir hvíld gafst rétt í kringum áramótin, ég svaf þau af mér,“ skrifar Jón Emil á bloggsíðu sína.

Teymið eyddi nýársnótt í að koma sjónaukanum að skotstaðnum, þangað sem hann komst kl. 8 um morguninn. Þá byrjaði aftur að verða vart við vind og það var því ekki fyrr en síðdegis að staðartíma sem hann var loks sendur á loft. Neðst í fréttinni má sjá myndskeið af því þegar SPIDER hófst á loft.

Kemst líklega heim í lok mánaðar

Nú svífur SPIDER í um 35 kílómetra hæð yfir sjávarmáli og mjakast á um 20 km/klst í suðvesturátt. Sjálfvirkur búnaður sendir rannsóknarteyminu SMS-skilaboð á fimmtán mínútna fresti um ástand tilraunarinnar, hitastig, flughæð, stefnu og almenna heilsu sjónaukans, að því er Jón Emil skrifar. Öll skilaboðin hingað til benda til þess að tilraunin sé í toppformi.

Í samtali við mbl.is í gegnum tölvupóst segir Jón Emil að sjónaukinn fljúgi vonandi í tuttugu daga. Sjálfur verður hann eitthvað áfram á Suðurskautslandinu.

„Ég verð líklega hérna nokkra daga fram yfir daginn sem að tilraunin er kölluð niður. Það getur verið að ég fari í leiðangur til þess að ná gögnunum eftir að tilraunin lendir á ísnum. Sú ákvörðun verður tekin á næstu dögum. Ætli ég verði ekki kominn heim í lok janúar,“ segir hann.

Það virðist þó ekki væsa um hann því eins og hann skrifar á bloggsíðu sína:

„Nú sit ég í þessari kompu [SPIDER-stjórnstöðinni] og horfi á yndislega ómerkilegt graf, eins og ég vil helst sjá það. Fylltar lakkrísreimar og ný íslensk tónlist frá mömmu brúa bilið þangað til að ég kemst heim. SPIDER fór í loftið klukkan 03:59 (á íslenskum tíma) á nýársdegi, 16:59 að staðartíma. Við erum full eftirvæntingar að skoða gögnin, skyggnast enn lengra aftur í tímann — læra meira í dag en í gær,“ skrifar Jón Emil frá Suðurskautslandinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af því þegar SPIDER var sendur á loft á nýársdag.

Hér er svo hægt að fylgjast með flugi SPIDER yfir Suðurskautslandinu.

Fyrri fréttir mbl.is:

Myndar fyrsta ljós alheimsins

Beðið eftir veðri fyrir SPIDER

Íslendingur rannsakar Miklahvell

Skotbíllinn The Boss hélt SPIDER uppi áður en sjónaukinn var …
Skotbíllinn The Boss hélt SPIDER uppi áður en sjónaukinn var sendur á loft með milljón rúmmetra helíumloftbelg. Jón Emil Guðmundsson
Jón Emil við sjónaukann á skotdaginn.
Jón Emil við sjónaukann á skotdaginn. Jón Emil Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert