Fjallað um Brynjar Karl á Discovery

Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt.
Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt. mbl.is/Árni Sæberg

Legómeistarinn Brynjar Karl Birgisson leggur þessa dagana lokahönd á sex metra langa legóeftirlíkingu af Titanic-skipinu sögufræga. Verkefni hans hefur vakið mikla athygli og langt út fyrir landsteinanna. Meðal annars mun bandaríska sjónvarpsstöðin Discovery Science fjalla um Brynjar Karl og smíðina.

Smíðin hófst síðasta sumar og sem áður segir er Brynjar Karl á lokametrunum. Í næstu viku er ráðgert að flytja skipið í verslunarmiðstöðina Smáralind þar sem Brynjar Karl mun klára verkið fyrir framan gesti og gangandi. Eins og áður hefur komið fram á mbl.is er hins vegar ólíklegt að Brynjar Karl taki sér annað eins verkefni fyrir hendur - alla vega strax.

Frétt mbl.is: Mamma bannar annað legóverkefni

Á facebooksíðu Brynjars Karls greindi hann frá því í dag að myndatökumaður frá Discovery Science hefði heimsótt hann á vinnustofuna auk þess sem tekið var viðtal við hann í gegnum síma. „Ég er alltaf jafn hissa á þessu,“ segir Bjarney S Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars, aðspurð um heimsóknina og hvernig hún kom til. Hún segir að líklega hafi einhver hjá sjónvarpsstöðinni rekist á frétt um smíðina. „Hún [sjónvarpskonan] hringdi bara og spurði hvort við værum til í að leyfa umfjöllun um þetta.“

Bjarney segir að efnið verði klippt saman í sögu um verkefnið og birt eftir líklega tvær vikur í Norður-Ameríku. Hún segir jafnframt að Brynjar hafi heldur betur verið ánægður með heimsóknina. „Hann var himinlifandi. Þetta er uppáhalds stöðin hans.“

Frétt mbl.is: Engin lagt í slíkt verkefni áður

Það er nýtt að frétta af smíði Brynjars að unnið var í dag við að koma ljósum fyrir inni í skipinu. „Nú eru allar jólaseríurnar komnar á útsölu þannig að hann fór með afa sínu og þeir keyptu seríur og voru að prófa þetta í dag, þannig að skipið verður upplýst. Svo var hann að reyna plata afa sinn til þess að láta reyk koma upp úr skorsteininum. Afinn lætur allt eftir barnabarninu þannig að hann þarf að finna út úr því.“

Fréttir mbl.is af smíði Brynjar Karls á Titanic-skipinu:

6 metra legó-Titanic í fæðingu

Brynjar Karl hálfnaður með Titanic

Titanic tekur á sig mynd

Lífsglaður Legómeistari hyggur á byggingu Titanic

mbl.is