Aðalmeðferð frestast vegna matsbeiðni

Atvikið átti sér stað á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut í …
Atvikið átti sér stað á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut í október 2012. mbl.is/Ómar

Verjandi hjúkrunarfræðings sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir manndráp af gáleysi hefur lagt fram matsbeiðni til að fá úr því skorið hvort lyfjagjöf hafi haft áhrif á andlát karlmanns sem lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut í október 2012.

Þetta kom fram við fyrirtöku málsins við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.

Einar Gautur Steingrímsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins, lagði beiðnina fram með formlegum hætti fyrir hádegi. Ekki liggur fyrir hvenær megi vænta niðurstöðu matsmannanna. Aðalmeðferð málsins átti að fara fram 23. febrúar nk. en henni hefur verið frestað ótímabundið vegna matsgerðarinnar.

Einar Gautur segir að maðurinn hafi fengið öndunarbælandi lyf og því vilji hann fá úr því skorið, með hjálp sérfræðinga, hvort lyfin hefðu getað átt þátt í dauða mannsins eða hvort dauðsfallið megi rekja til annarra þátta.

Einar Gautur segir að nýru mannsins hafi verið óstarfhæf og að við krufningu hafi fundist eitrunaráhrif í lifur hans. Þar af leiðandi hafi ekki verið nein starfhæf líffæri sem gátu skilað öndunarbælandi lyfjunum út úr líkamanum.

Ríkissaksóknari ákærði hjúkrunarfræðinginn og Landspítalann fyrir manndráp af gáleysi í maí á síðasta ári.

Málið var þing­fest 24. júní á síðasta ári þar sem hjúkr­un­ar­fræðing­ur­inn lýsti yfir sak­leysi sínu og slíkt hið sama gerði lögmaður Land­spít­al­ans fyr­ir hönd sjúkra­húss­ins. 

Sam­kvæmt ákæru láðist hjúkr­un­ar­fræðingn­um að tæma loft úr kraga bark­ar­auf­ar­rennu þegar hún tók karl­mann úr önd­un­ar­vél og setti tal­ventil á bark­ar­auf­ar­renn­una. Af­leiðing­ar þess urðu þær að maður­inn gat ein­ung­is andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súr­efn­is­mett­un og blóðþrýst­ingi og hann lést skömmu síðar.

Einar Gautur heldur því fram að ákæran standist ekki og að hjúkrunarfræðingurinn hafi tæmt loftið. Hann segist hafa gögn sem sýni fram á að það hafi liðið hálftími frá því að talventillinn var settur upp með réttum hætti og þar til eitthvað fór úrskeiðis. Því vill hann fá það metið hvort lyf hafi getað átt þátt í andláti mannsins.

Fjór­ar einka­rétt­ar­kröf­ur eru gerðar í mál­inu. Upphaflega hljóðuðu kröfurnar upp á 14,5 milljónir króna, en krafist var bóta vegna missis framfæranda, miska­bóta og bóta út­far­ar­kostnað. Við síðustu fyrirtöku málsins í október sl. var hins vegar fallið frá kröf­u vegna missis fram­fær­anda, en sú krafa hljóðaði upp á 7,5 milljónir króna. Eftir standa því kröfur upp á sjö milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert