Leita áfram sátta

Gísli Freyr hefur viðurkennt lekann.
Gísli Freyr hefur viðurkennt lekann. mbl.is/Golli

Í morgun fór fram fyrirtaka í skaðabótamáli Tony Omos og barnsmóður hans gegn Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra. Að frumkvæði dómara var ákveðið að málsaðilar myndu reyna áfram að ná sáttum en eins og ítarlega hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum hefur Gísli játað sig sekan um að leka minnisblaði um Omos og barnsmóður hans í fjölmiðla. 

„Hún [dómarinn] lagði mikið upp úr því að það yrði reynt til þrautar að semja í málinu sem ég held að sé mjög skynsamlegt, í það minnsta útfrá mínum umbjóðanda,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður barnsmóður Omos.

„Við viljum auðvitað semja ef við getum fengið sátt sem okkur er boðleg,“ heldur hún áfram. 

Málsaðilar munu aftur hittast fyrir dómi undir lok febrúar. Ef samningar nást lýkur málinu þar en að öðrum kosti verður það líklega flutt í haust að sögn Katrínar.

mbl.is