Fylgdi manninum inn í rangt anddyri

Enn eru hnökrar á ferðaþjónustu fatlaðra.
Enn eru hnökrar á ferðaþjónustu fatlaðra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bílstjóri ferðaþjónustu fatlaðra sem átti að aka ungum, mikið fötluðum karlmanni í endurhæfingu í Kópavogi í gær ók honum að röngu húsi og skildi hann af þar leiðandi eftir í röngu anddyri. Maðurinn kannaðist ekki við sig í anddyrinu þar sem bílstjórinn skildi við hann og vegna fötlunar sinnar átti hann erfitt með að útskýra aðstæður sínar og leita sér aðstoðar. 

Móðir Þórðar Guðlaugssonar, sem í daglegu tali er kallaður Doddi, vakti athygli á málinu í færslu á Facebook-síðu sinni í gær. Sagði hún að hann hefði verið skilinn eftir á röngum stað og enginn hafi verið til að taka á móti honum. Hún vill að núverandi kerfi ferðaþjónustu fatlaðra verði lagt niður og það gamla tekið upp á nýju. Doddi er eins og áður sagði mikið fatlaður, gengur við tvo stafi og er mjög málhaltur.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Húsakjarninn þar sem endurhæfingin er til húsa er flókinn og áttaði bílstjórinn sig ekki á því að hann var við rangt hús. Jóhannes segir að enginn hafi tekið á móti Dodda í anddyrinu en margir hafi aftur á móti verið í húsnæðinu.

Þarf bílstjórinn ekki að bíða eftir því að einhver komi og taki á móti unga manninum?

„Samkvæmt okkar upplýsingum þarf hann aðstoð inn í anddyrið og úr anddyri og inn í bíl. Bílstjórinn setur hann út á röngum stað, það eru mistökin,“ segir Jóhannes og bætir við að fljótlega hafi komið í ljós að Doddi var ekki á réttum stað og var honum komið í endurhæfinguna.

Álagið mjög mikið

„Okkur finnst við alltaf vera að bæta þetta, bæði tímasetningar og annað. Álagið er mjög mikið en ferðunum hefur verið að fjólga sem kemur okkur á óvart miðað við umræðuna sem hefur verið neikvæð,“ segir Jóhannes, aðspurður um hvernig starfssemi Ferðaþjónustu fatlaðra hefur gengið síðustu daga.

Í gær, þriðjudag, voru farnar rúmlega 250 fleiri ferðir en á mánudaginn og er það um 250 ferðum fleiri en að meðaltali. „Ef maður horfir á þessar tölur verður maður að fullyrða að einhverjir séu ánægðir með þetta. Við erum aftur á móti að lenda í vandræðum með tímasetningar vegna skorts á bílum,“ segir Jóhannes.

Erlendir sérfræðingar kenna á kerfið

„Við getum ekki hreyft okkur mjög hratt, þetta er þjónusta sem er boðin út og við þurfum að vinna samkvæmt ákveðnu verklagi. Við erum vonandi að fara að bæta við um tíu til fimmtán bílum á næstu viku ef allt gengur upp. Við erum alltaf að skoða og leita leiða og fjölga innan þessa ramma sem við höfum,“ segir Jóhannes.

Erlendir sérfræðingar voru fengnir til að fara yfir kerfið og kenna betur á það. „Við viljum sýna fram á að kerfið getur gert ákveðna hluti,“ segir Jóhannes. Hann segist fullur bjartsýni en unnið er að gerð verklagsreglna og viðbragðsáætlana. „Þetta er rosalega langt og stórt ferli, fullt af mannlegum þáttum. Það er víst mannlegi þátturinn sem klikkar oftast.“

Bíður eftir útskýringu Hópbíla

Skilinn eftir á röngum stað

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert