Afnám verðtryggingar hefjist 2016

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri hluti sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum lagði til að vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016 þegar reynsla yrði komin á þær breytingar sem hópurinn taldi að gera ætti í fyrsta áfanga.

Þetta segir í svari frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um það hvenær mætti búast við að verðtrygging neytendalána yrði afnumin að fullu.

Breytingar í fyrsta áfanga muni felast í því að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár, takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar verði auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

mbl.is

Bloggað um fréttina