Alfreð eftirlýstur flóttamaður

Lögreglustöðin í San Bernardino.
Lögreglustöðin í San Bernardino. mynd/Lögreglan í San Bernardino

Alfreð Örn Clausen er eftirlýstur flóttamaður og er verið að skoða möguleika á því að hann verði handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í skriflegu svari Maurice Landrum, yfirrannsóknarmanns við lögregluembættið í San Bernardino í Kaliforníu í Bandaríkjunum, við fyrirspurn mbl.is.

Kemur jafnframt fram í svari Landrum að Alfreð hafi verið ákærður ásamt tveimur samstarfsmönnum hans sem eru nú í varðhaldi. 

Eins og fram hefur komið á mbl.is er Alfreð talinn hafa ásamt tveim­ur öðrum svikið meira en 44 millj­ón­ir doll­ara, rúma sex millj­arða króna, út úr hópi fólks með lof­orðum um að breyta lán­um þess.

Í yfirlýsingu frá lögmanni Alfreðs, Vil­hjálm­i H. Vil­hjálms­syni, lýsir Alfreð sig saklausan í málinu. Hann lít­ur svo á að hann sé hugs­an­lega vitni í mál­inu en ekki sak­born­ing­ur. Kemur jafnframt fram að Al­freð sé reiðubú­inn að aðstoða embættið með hverj­um þeim hætti sem þurfa þykir til þess að upp­lýsa málið. Er Alfreð jafnframt til­bú­inn til þess að gefa skýrslu hjá Ríkislögreglustjóra ef þurfa þykir. 

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hefur ekki verið haft samband við ráðuneytið varðandi framsal á Alfreð.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er í gildi er tvíhliða framsalssamningur milli Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1902, auk viðbótarsamnings frá 1905. Þess má þó geta að í 2. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er lagt bann við því að framselja íslenska ríkisborgara. Íslenskir ríkisborgarar hafa þó verið afhentir til Danmerkur á grund­velli laga nr. 12/​2010, um hand­töku og af­hend­ingu manna milli Norður­land­anna vegna refsi­verðra verknaða (nor­ræn hand­töku­skip­un), en þau lög tóku gildi 16. októ­ber 2012.

Alfreð Örn Clausen
Alfreð Örn Clausen Saksóknarinn í San Bernandino-sýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert