Greiðir bara upplýst atkvæði

„Ef ég myndi ekki gera neitt annað en að koma mér inn í þingmálin þá gæti ég það samt ekki,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. Hann greiði ekki atkvæði nema að athuguðu máli og að ákvörðunin sé upplýst. Hann er sá þingmaður sem oftast hefur setið hjá í atkvæðagreiðslum á yfirstandandi þingi.

Frétt mbl.is: Hafa í flestum tilvikum setið hjá.

Fram hefur komið að Jón Þór hefur setið hjá í 66% af þeim atkvæðagreiðslum sem hann hefur verið viðstaddur á yfirstandandi þingi. Píratar skera sig reyndar úr hvað þetta varðar en að hluta til skýrist það af því að flokkurinn er lítill og ekki sé mannafli til að fara yfir öll þingmál að sögn Jóns Þórs. Þá væri til bóta ef hægt væri að kynna sér fundi sem eru haldnir af nefndum Alþingis, þar fari fram mikilvæg vinna sem þingmenn sem ekki sitja í nefndunum hafi lítil tök á að kynna sér.

mbl.is ræddi við Jón Þór um atkvæðagreiðslur Pírata.

mbl.is