Hátt í milljón í fjölmiðlaráðgjöf

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur greitt rúmar 0,8 milljónir í …
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur greitt rúmar 0,8 milljónir í þjónustu KOM almannatengsla vegna lekamálsins og samantektar um mótmæli í kjölfar hrunsins. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu greiddi almannatengslafyrirtækinu KOM 828 þúsund krónur fyrir fjölmiðlaráðgjöf á árunum 2014-2015 í tengslum við lekamálið og samantekt um mótmæli eftir hrun. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata.

Þingmaðurinn spurði hver heildarkostnaður embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi verið við fjölmiðlaráðgjöf KOM almannatengsla á árunum 2014 til 2015 vegna samantektar á skipulagi lögreglu við mótmæli á árunum 2008 til 2011 og lekamálsins svokallaða.

Í svari innanríkisráðherra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi kostnaðurinn í heildina verið 828.750 krónur á þessu tímabili. Hann var greiddur í fjórum greiðslum frá 25. nóvember 2014 til 25. febrúar 2015. Hæsta einstaka greiðslan nam 367.500 krónur 29. desember 2014.

Stærstur hluti kostnaðarins var vegna lekamálsins, alls 678.750 krónur, en 150.000 krónur fóru í fjölmiðlaráðgjöf vegna samantektarinnar um mótmælin 2008-2011.

Svar innanríkisráðherra um kostnað við fjölmiðlaráðgjöf fyrir lögregluna

mbl.is