Stórt skarð í stígnum

Eins og sjá má á myndinni vantar stóran hluta stígsins.
Eins og sjá má á myndinni vantar stóran hluta stígsins. Ljósmynd/Aron Reynisson

„Ég var þarna með hóp og þegar við löbbuðum þarna fram sé ég að það var stórt skarð í stígnum,“ segir leiðsögumaðurinn Aron Reynisson í samtali við mbl.is en hann náði mögnuðum myndum við Dyrahólaey í dag. Á þeim má sjá hvernig stórt stykki hefur fallið úr göngustígnum við brúnina.

Aron telur að skriðan hafi fallið í morgun. „Sólin skein á þessa hlið þegar ég var þarna og þetta var allt ennþá blautt. Ef þetta hefði verið löngu skeð væri þetta þurrt,“ segir Aron og bætir við að töluvert af ferðamönnum hafi komið að Dyrhólaey á eftir honum.

Í tilkynningu sem barst frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fyrr í kvöld er fólk beðið um að vera ekki við göngustíginn að óþörfu þar sem líklegt þyki að meira hrun verði.

Aron telur nauðsynlegt að bæta merkingar við Dyrhólaey. „Eftir slysið sem varð árið 2012 var sett girðing meðfram brúninni. En núna þegar maður ætlar að labba alveg yst út á eyjunni er í raun og veru enginn formlegur göngustígur. Fólk fer þarna bara á sína eigin ábyrgð.“ Hann telur þó að ekki þurfi endilega að banna fólki að ganga um eyjuna. „Ef þú labbar nógu innarlega er þetta ekkert vandamál,“ segir Aron.

Aron nefnir til dæmis bættar merkingar við Látrabjarg sem gera svæðið öruggara. „Það þarf betri merkingar á stöðum þar sem kemur svona mikill fjöldi eins og við Dyrahólaey og uppi á Reynisfjalli. Það þarf að vara fólk við því að fara alveg út að brúninni. Það er lundi þarna og fólk liggur oft fram á brúninni og er að taka myndir.“

Fjölmargir ferðamenn heimsækja Dyrhólaey á degi hverjum.
Fjölmargir ferðamenn heimsækja Dyrhólaey á degi hverjum. Ljósmynd/Aron Reynisson
Ljósmynd/Aron Reynisson
mbl.is

Bloggað um fréttina