„Við verðum að fara að ljúka þessu“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Möguleg aðkoma ríkisins að kjarasamningunum var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann segir það ekki stefnu ríkisstjórnarinnar að grípa til skattahækkana. Skattalækkanir gætu frekar komið til greina sem hluti af lausn á vandanum á vinnumarkaði.

„Við ræddum mögulega aðkomu ríkisins, meðal annars vegna húsnæðismálanna, án þess að sérstök frumvörp hafi verið undir. Og það fer að verða aðkallandi. Nú er loksins að koma hreyfing, vona ég, á viðræðurnar á almenna vinnumarkaðinum og getum við þá gert betur greint fyrir því hvað kemur til álita að ríkið geri til að styðja við kaupmáttaraukningu launþega á næstu árum,“ sagði Bjarni að loknum fundi.

Hann nefndi meðal annars að aðgerðir í húsnæðismálum gætu verið mikilvægur liður í því að „binda saman niðurstöðu á vinnumarkaðinum og það getur hugsanlega gerst með einhverjum aðgerðum sem verða lögfestar núna, en það má líka sjá fyrir sér að það geti verið á haustþinginu,“ sagði hann.

Skattahækkanir ekki á stefnuskránni

Aðspurður um nýleg ummæli forsætisráðherra um að skattahækkanir komi til greina ef launahækkanir í kjaraviðræðunum ógna stöðugleika sagði Bjarni:

„Menn verða að horfa á þetta, sem þarna er verið að segja, í eðlilegu samhengi. Hann er að benda á það sem ég hef líka verið að nefna. Við öll höfum sameinglega hagsmuni af því að það sem gerist í niðurstöðu kjaradeilnanna leiði ekki til of mikillar verðbólguþenslu. Stjórnvöld bera skyldu til að draga úr verðbólguáhrifum í samfélaginu og ein leið til þess að gera það væri að vera með gjalda- og skattahækkanir til þess að taka peninga úr umferð.

Það vita það allir að það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að grípa til skattahækkana. Við erum að leita eftir niðurstöðu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem tryggir raunverulega kaupmáttaraukningu og við gætum komið með skattalækkanir að því máli. Við höfum talað um það lengi og það stendur í stjórnarsáttmálanum.

Vonandi verður niðurstaðan einhver blanda af launahækkunum og aðgerðum ríkisins sem ná fram sama markmiði, að bæta kjör fólksins í landinu.“

Myndi setja ríkið í betri stöðu

Bjarni sagðist vonast til þess að verið væri að nálgast einhverja lausn í kjaradeilunum, að minnsta kosti að hluta til, á almenna markaðinum. 

„Við eigum mjög mikið undir því að það fari líka eitthvað að gerast í samtalinu við opinbera vinnumarkaðinn, svo sem BHM og hjúkrunarfræðinga sem hafa boðað til verkfalla og verið í verkföllum í mjög langan tíma. Við verðum að fara að ljúka þessu og ef við erum að sjá einhverja hreyfingu á almenna markaðinum, þá gæti það mögulega hjálpað. Það myndi setja ríkið í betri stöðu til að svara því gagnvart öllum þessum aðilum hvaða aðgerðir við getum kynnt til sögunnar á þessu og næsta ári, þannig að við náum sameiginlega markmiðinu, að bæta kjör fólks í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina