„Verst að greyið er enn lifandi“

„Ég veit ekki til þess að það hafi gerst áður að hvalur hafi farið inn í Skarðsfjörð og strandað þar. Allavega ekki undanfarin ár. Hann þarf þá að fara hérna inn ósinn og austur með fjörunum. Það er nokkuð ferðalag hér innan fjarðar. Það versta er að greyið er lifandi ennþá.“

Þetta segir Runólfur Hauksson í samtali við mbl.is en hnúfubakur er standaður í Skarðsfirði við Höfn í Hornafirði og hefur allavega verið þar í þrjá sólarhringa. Hvalurinn er enn með lífsmarki en er illa farinn eins og meðfylgjandi myndir bera með sér sem Runólfur tók. Hann tilkynnti lögreglunni um fundinn á þriðjudagskvöldið og samkvæmt upplýsingum frá henni hefur öllum viðeigandi stofnunum verið gert viðvart. Það sé þess utan á ábyrgð sveitarfélagsins.

„Vinnufélagi minn hérna við höfnina fór á mánudeginum út á fjörur að athuga með innsiglingaljós og þá finnur hann hvalinn. Hann sagði okkur síðan frá því þegar hann kom til baka. En hann taldi hvalinn dauðan. Síðan fer ég þarna á þriðjudagskvöldið með frönsku vinafólki mínu til þess að sýna því hvalinn. Svo þegar hundurinn minn hleypur niður í fjöruna og fer að gelta þá fór sporðurinn hátt á loft og barðist niður. Ég fór síðan aftur núna um ellefuleytið í morgun. Þá var hann búinn að snúa sér aðeins meira í austur. Þá lyfti hann sporðinum og ég heyrði blásturinn í honum,“ segir Runólfur.

„Bara til þess fallið að lengja dauðastríðið“

Hnúfubakurinn fer nánast á kaf á flóði að sögn Runólfs. Þá sést ekki nema í um 20 sentimetra af honum en á fjöru er hann í grunni vatni. Myndirnar eru teknar við síðarnefndu aðstæðurnar. Þar sést hvar hvalurinn hreyfir sporðinn þegar hundurinn geltir á hann. Hnúfubakurinn er 12-15 metra langur að hans mati. Fullorðnir hnúfubakar eru um 13-17 metrar á lengd og 25-40 tonn að þyngd. Eitt helsta einkenni hnúfubaks eru mjög löng bægsli sem geta orðið 5-6 metra löng eða um þriðjungur af skrokklengd.

„Ég held að þetta sé því miður bara til þess fallið að lengja dauðastríðið fyrir greyið,“ segir Runólfur um veru hnúfubaksins í fjörunni við Skarðsfjörð. „Hann er ekkert að fara að losna af þessum stað. Og jafnvel þó hann gæti það er hann það illa farinn að hann myndi örugglega ekki lifa af. Ég hef verið í sambandi við yfirdýralækni hjá Matvælastofnun. Þar er verið að vinna í því að finna nógu öflugt vopn til þess að binda enda á kvalir dýrsins. Það þarf mjög öflugan riffil til þess og gera þetta eins mannúðlega og hægt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert