Íslendingar í stóru hlutverki í HeForShe

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er einn tíu þjóðarleiðtoga sem munu leiða nýtt verkefni HeForShe sem nefnist IMPACT 10x10x10. Munu leiðtogarnir 10 taka á sig skuldbindingar til að ná jafnrétti, bæði innanlands og á heimsvísu.

Verkefnið var fyrst kynnt í janúar á World Economic Forum í Davos. Leiðir það saman leiðtoga 10 þjóða, 10 fyrirtækja og 10 menntastofnana um allan heim. Hafa allir leiðtogarnir 30 skuldbundið sig til þess að takast á við mismunandi þætti kynjamisréttis. Skuldbindingar Íslands snúa meðal annars að því að útrýma launamun á Íslandi fyrir 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. 

Mun hópurinn síðan vinna saman til að nýta reynsluna af framkvæmd verkefnanna til að hvetja aðra leiðtoga til að taka upp sömu málefni í sínum ríkjum, fyrirtækjum og háskólum. 

Skuldbindingarnar eru unnar í samstarfi við UN Women, jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem kynnti verkefnið HeForShe í september 2014 með ávarpi Emmu Watson, góðgerðarsendiherra UN Women. Markmið verkefnisins er að ná til milljarðs karla um allan heim til stuðnings jafnréttis. 

Hinir þjóðarleiðtogarnir sem taka þátt í verkefninu eru: Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Michael D. Higgins, forseti Írlands, Joko Widodo, forseti Indónesíu, Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, Arthur Peter Mutharika, forseti Malaví, Klaus Werner Iohannis, forseti Rúmeníu, Paul Kagame, forseti Rúanda og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. 

Emma Watson kynnti verkefnið HeForShe á vegum UN Women í …
Emma Watson kynnti verkefnið HeForShe á vegum UN Women í september á síðasta ári. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert