Lúsmý herjar á Ísland

Lúsmý úr Kjósinni síðastliðna helgi.
Lúsmý úr Kjósinni síðastliðna helgi. Erling Ólafsson.

Lúsmý tók að herja á íbúa sumarhúsa beggja vegna Hvalfjarðar síðastliðna helgi. Ekki er vitað til að slíkar atlögur hafi átt sér stað áður hér á landi og lentu sumarhúsaeigendur margir hverjir illa í mýinu. Atgangurinn virðist hafa byrjað föstudaginn 26. júní og varð til þess að margir sumarhúsaeigendur þurftu að flýja sveitasæluna.

Á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands kemur fram að lúsmý er af ætt örsmárra mýflugna sem langflest sjúga blóð úr öðrum dýrum, allt frá skordýrum til mannskepna. Þeir sem fyrir atlögum urðu voru flestir illa útleiknir.

Lúsmý tilheyrir ættinni Ceratopogonidae sem hýsir fjölda tegunda um allan heim. Ættin hefur hlotið litla athygli vegna þess hve óaðgengileg hún er.

Þær sem girnast mannfólkið eru af ættkvíslinni Culicoides en þær hafa til þessa ekki verið þekktar hér á landi. Náttúrufræðistofnun telur þó ekki óvarlegt að ætla að þær flugur sem voru á ferðinni í Hvalfirðinum um helgina tilheyri þessari ættkvísl og séu því nýjung í smádýrafánu Íslands. Í Skotlandi finnast sextán tegundir sem leggjast á fólk og því þarf að leggjast í frekari rannsóknarvinnu hér á landi.

Tegundir lúsmýs eru sumar illa liðnar fyrir að bera sjúkdóma í húsdýr. Engin skosku tegundanna er þekkt fyrir að sýkja menn en atlögurnar geta verið ljótar. Oft verða menn ekki varir við agnarsmá kvikindin þegar þau stinga og vita því ekki hvað gerst hefur þegar skyndilegur roði, kláði og bólgur í húð blossa upp.

Flugurnar geta lagt til atlögu margar saman, tugir eða hundruð, að nóttu til eða degi, utan húss sem innan, og skilið eftir sig ljót bit. Þær verða til við ýmsar aðstæður, í vatni, blautum og rökum jarðvegi eða í skíthaugum við gripahús.

mbl.is