Smeyk við að ferðast eftir að hafa verið bitin

Tveimur dögum eftir að hafa verið bitin steyptist Bylgja Guðrún …
Tveimur dögum eftir að hafa verið bitin steyptist Bylgja Guðrún út í rauðum flekkjum. Ljósmynd/Bylgja Guðrún

Kona sem upplifði svæsin ofnæmisviðbrögð eftir að hafa verið bitin af lúsmýi í fyrra kveðst hrædd við að ferðast í sumar og mun hún halda sér frá öllum tjaldútilegum og sumarbústaðaferðum næstu mánuðina.

Hún varar nú aðra við útilegum á svæðum þar sem lúsmý hefur tekið sér bólfestu enda vill hún ekki að neinn annar upplifi það sama og hún síðasta sumar. Hún kveðst þó gera sér grein fyrir að eðlilega séu viðbrögð hvers og eins við bitunum einstaklingsbundin, en sjálf er hún með lélegt ónæmiskerfi sem hún telur hafa orsakað viðbrögðin.

Bit á andliti Bylgju Guðrúnar eftir ferðalag á Akureyri síðasta …
Bit á andliti Bylgju Guðrúnar eftir ferðalag á Akureyri síðasta sumar. Ljósmynd/Bylgja Guðrún

Gekk erfiðlega að meðhöndla bitin

Bylgja Guðrún Brynjólfsdóttir var stödd í sumarbústað í Grímsnesinu þegar hún var bitin fyrst af lúsmýi síðasta sumar. Tveimur dögum síðar byrjuðu ofnæmisviðbrögðin að koma fram þegar hún steyptist öll út í rauðum blettum eftir bitin.

„Þetta er eitt það versta sem ég hef upplifað í sambandi við húðina mína,“ segir Bylgja Guðrún í samtali við mbl.is þegar hún lýsir bitunum og ofnæmisviðbrögðunum fyrir blaðamanni. „Manni leið bara ótrúlega illa.“

Hún fékk uppáskrifað Dermovat, sem er kláðastillandi lyf, frá lækni í kjölfarið en þrátt fyrir það segir hún að erfiðlega hafi gengið að meðhöndla bitin og voru þau mjög lengi að fara. Útbrotin hurfu ekki fyrr en hún fékk sýklalyf.

Ljósmynd/Bylgja Guðrún

Fer frekar í vetur 

Bylgja Guðrún á heima á Blönduósi þar sem hún segir lúsmýið ekki hafa gert vart við sig. Hún sé hins vegar smeyk við að ferðast á milli landshluta í sumar og segir hún tjaldútilegur og sumarbústaðarferðir ekki í kortunum. 

Mun hún frekar stefna á að fara í sumarbústað yfir vetrartímann enda vill hún forðast það eins og hún getur að vera bitin aftur.

Ljósmynd/Bylgja Guðrún
mbl.is