Þegar Vigdís fékk Picasso-verk að gjöf

Fyrir tæpum 30 árum síðan gaf Jacqueline Picasso, ekkja Pablo Picasso, Vigdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta, málaðan skúlptur sem Picasso hafði gert af henni. Þær höfðu náð vel saman á listahátíð árið 1986 þegar sýning á verkum Picasso var sett upp á Kjarvalstöðum, en aðeins fáum vikum síðar stytti Jacquiline sér aldur.

Verkið sem nefnist Jacqueline með gulan borða er nú til sýnis í Listasafni Íslands og af því tilefni fékk mbl.is Vigdísi til að rifja söguna upp en hún segir Jacqueline Picasso hafa verið ákaflega einmana konu.

Picasso, sem er án efa frægasti listmálari sögunnar, gerði meira en 400 verk af Jacqueline sem var seinni kona hans en hún var einungis 26 ára þegar hún kynntist honum og þá var hann orðinn 72 ára. Hann lést árið 1971 og hún átti íillvígum deilum við börn hans um hvernig skipta ætti dánarbúinu.

Verkið hefur verið afar eftirsótt á sýningar víða um heim og hefur því sjaldan verið til sýnis hér á landi en er nú á langtímasýningu á safninu. 

Vigdís segir að aldrei hafi komið til greina að hún myndi eiga verkið persónulega og hafi veitt því viðtöku fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Verkið var svo afhent Listasafni Íslands til varðveislu árið 1988.

mbl.is

Bloggað um fréttina