Meirihlutinn vill ekki í ESB

Norden.org

Meirihluti landsmanna er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, dagana 16.-27. júlí. Þetta kemur fram í frétattilkynningu frá samtökunum.

Rúmur helmingur, eða 50,1%, er andvígur inngöngu í ESB en rúmur þriðjungur er henni fylgjandi eða 34,2%. 15,6% sögðust hvorki fylgjandi né andvíg inngöngu í sambandið. Sé eingöngu tekið mið af þeim sem taka annað hvort afstöðu með eða á móti inngöngu Íslands í ESB eru 59,4% andvíg aðild að sambandinu og 40,6% henni hlynnt.

Mest andstaða við inngöngu í ESB er meðal kjósenda stjórnarflokkanna. Þannig eru 94% þeirra sem segjast kjósa Framsóknarflokkinn andvígir inngöngu í sambandið og 83% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Þá eru um 40% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs andsnúin því að ganga í ESB en þriðjungur hlynntur.

Stuðningur við inngöngu í ESB er mestur hjá kjósendum Samfylkingarinnar eða 78%. Þá eru 66% af stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar hlynnt inngöngu í sambandið og 54% af kjósendum Pírata.

Samtals voru 1482 manns í úrtaki í skoðanakönnun Gallup af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi fyrirtækisins. Fjöldi svarenda var 825, eða 55,7%. Spurt var: Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB)?

mbl.is