„Tími kollsteypustjórnmála er liðinn“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að með auknum jöfnuði, nýrri hugsun í atvinnu- og umhverfismálum, auknu lýðræði og þeirri skýru sýn að arður af auðlindum Íslands og arður af eigum fólks í landinu eigi heima hjá fólki í landinu geti framtíðin orðið frábær.

Í ræðu sinni við setningu 145. löggjafarþings í kvöld sagði hún tími kollsteypustjórnmála þar sem skammtímahagsmunir hinna fáu ráða á kostnað langtímahagsmuna hinna mörgu sé liðinn. 

Hún sagði núverandi ríkisstjórn hafa lagt ofurkapp á að snúa öllu við sem sú síðasta gerði án neinnar hugsunar um langtímasjónarmið.

„Við hljótum flest að geta viðurkennt að frá hruni hafa flestir lagst á árarnar við að byggja hér upp efnahag og samfélag og líklega hefði það aldrei tekist nema vegna þessa samstillta átaks. Það er slík samstaða sem skilar árangri en ekki þau kollsteypustjórnmál sem hæstvirtur forsætisráðherra virðist aðhyllast,“ sagði Katrín.

Þarf að endurskoða hvernig kökunni er skipt

Katrín sagði að Vesturlönd beri sína ábyrgð á stöðunni sem nú er upp í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggi Vesturlöndum ríkar skyldur á herðar.

„Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð,“ sagði Katrín. Sagði hún Ísland þurfa að hugsa stöðu sína í samfélagi þjóðanna, beita sér fyrir friðsamlegum lausnum hvar sem því verður við komið og reyna að tryggja þannig að sem fæstir þurfi að leggja á flótta.

„Það þarf að endurskoða það hvernig við skiptum kökunni. Til þess þarf róttækar aðgerðir og breytta hugsun. Við þurfum að átta okkur á því að fjármálakerfið er mannanna verk og lýtur ekki náttúrulögmálum. Þetta kerfi á að þjóna fólkinu en ekki sjálfu sér,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert