Benjamín við góða heilsu

Siem Pilot
Siem Pilot

Benjamín Ólafsson er við góða heilsu og snýr heim til Noregs ásamt fjölskyldu sinni innan skamms að lokinni læknisskoðun. Þetta hefur mbl.is eftir talsmanni norska skipafélagsins O. H. Meling & Co. AS sem Benjamín starfar hjá.

Víðtæk leit var gerð að Benjamín á Sikiley eftir að hann yfirgaf björgunarskipið Siem Pilot um miðja nótt á mánudag en hann er skipverji á skipinu. Skipið hefur tekið þátt í að bjarga flóttamönnum á Miðjarðarhafi. Móðir Benjamíns, Ragnheiður Benjamínsdóttir, staðfesti við mbl.is fyrr í kvöld að hann væri fundinn.

Fram kemur á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK að skipafélagið hafi sent annan starfsmann til Sikileyjar til þess að leysa Benjamín af svo hann geti snúið aftur til Noregs með fjölskyldu sinni. Samtals eru 30 manns í áhöfn skipsins. Tuttugu hafa starfað í norsku lögreglunni eða hernum en 10 eru óbreyttir borgarar.

„Það sem ég get sagt er að hann fer í læknisskoðun um borð í skipinu núna. Fyrirtækið hefur sent nýjan starfsmann til þess að hann geti snúið aftur heim til Noregs með fjölskyldu sinni einhvern næstu daga,“ hefur norska dagblaðið Verdens Gang eftir Axel Due, talsmanni norsku rannsóknarlögreglunnar. 

Due segir að ekki sé hægt að segja meira um málið að svo stöddu og að fjölskylda Benjamíns hafi óskað eftir því að vera látin í friði vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert