Féll átta metra niður í urð

Við Svínafellsjökul. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar …
Við Svínafellsjökul. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Rax

Ísraelski ferðamaðurinn sem lést við Svínafellsjökul í gær var á gangi á göngustíg utan í Hafrafelli skammt frá bílastæði við jökulinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu virðist hann hafa hrasað og fallið um átta metra niður í grjóturð. Lík hans verður krufið áður en það verður flutt heim.

Slysið átti sér stað um miðjan dag í gær en maðurinn sem lést var 65 ára gamall Ísraeli. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að hann hafi verið á gangi með hópi um tuttugu samlanda sinna.

Hópurinn var á gangi suður göngustíg sem liggur utan í Hafrafelli vestan með Svínafellsjökli. Þorgrímur Óli segir að staðurinn þar sem maðurinn féll sé í um 300 metra fjarlægð frá bílastæði.

„Við vitum að hann féll þarna fram af kletti, eitthvað um átta metra fjall, niður í grjóturð. Það er talið að hann hafi bara hrasað af stígnum,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn.

Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu. Þorgrímur Óli segir að lík hans verði krufið til að skera endanlega úr um dánarorsök og í framhaldinu verði það væntanlega flutt úr landi.

Fyrri frétt mbl.is: Ísraeli lést við Svínafellsjökul

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert