Um umtalsverðar fjárhæðir að ræða

Það tekur sinn tíma að vinna úr þeim gögnum sem …
Það tekur sinn tíma að vinna úr þeim gögnum sem voru haldlögð og komu fram við yfirheyrslur. mbl.is/Ómar

Rannsókn sérstaks saksóknara á meintum fjárdrætti hjá Sparisjóði Siglufjarðar er í fullum gangi. Um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða að sögn saksóknara og teygir málið sig yfir nokkurra ára tímabil. Tveir voru handteknir í tengslum við málið og er annar þeirra Magnús Jónasson, forseti bæjarstjórnar í Fjallabyggð. 

Stundin greindi fyrst frá þessu en mbl.is hefur fengið þetta staðfest. Ekki hefur verið gefið upp nafn hins mannsins. 

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við mbl.is að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Meðal annars sé verið að skoða ákveðnar millifærslur inn og út úr sparisjóðnum. Á sumum þeirra hafa fengist skýringar en aðrar hafa vakið upp nýjar spurningar. Aðspurður segir Ólafur að ekki sé hægt að segja til um heildarumfang meints fjárdráttar að svo stöddu. „Þetta er á nokkurra ára tímabili,“ segir Ólafur hins vegar.

Átta fulltrúar sérstaks saksóknara fóru til Siglufjarðar

Átta starfsmenn embættis sérstaks saksóknara fóru til Siglufjarðar snemma á þriðjudag. Sem fyrr segir voru tveir handteknir, leitir framkvæmdar, hald lagt á gögn og teknar skýrslur, bæði af sakborningum og vitnum.

„Það var byrjað um morguninn og unnið fram á kvöldið og unnið eftir aðgerðaáætlun sem var síðan kláruð,“ segir Ólafur. Hópurinn sneri til Reykjavíkur á miðvikudeginum.

„Það sem gerist síðan í framhaldinu er að það er unnið úr þessu öllu saman - öllu því sem fram hefur komið við yfirheyrslur og farið yfir þessu gögn sem eru tekin,“ segir Ólafur og bætir við að úrvinnsla og yfirferð gagna sé töluverð vinna.

„Í þessum efnahagsbrotum er það oft á tíðum einn tímafrekasti þátturinn hjá okkur,“ segir hann ennfremur.

Markmiðið að vinna hraðar

Frekari skýrslutökur munu eiga sér stað þegar búið verður að fara yfir umrædd gögn. Fleiri hafa ekki verið handteknir í tengslum við rannsóknina. 

Ljóst er að rannsóknin mun standa yfir í nokkra mánuði. „Við höfum sett okkur þau markmið að reyna að taka málin á skemmri tíma heldur en verið hefur,“ segir hann að lokum. 

Tveir handteknir grunaðir um fjárdrátt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert