Forgangsraða í þágu hinna ríku

Formaður Vinstri grænna á fundinum.
Formaður Vinstri grænna á fundinum. mbl.is/Guðmundur Karl

„Þrátt fyrir að bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafi gert sitt til að stuðla hér að efnahagslegum bata þá hefur núverandi ríkisstjórn í flestum sínum gerðum forgangsraðað í þágu hinna ríku,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í ræðu sinni á landsfundi hreyfingarinnar.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fer fram á Selfossi um helgina og hófst hann laust eftir klukkan 16 í dag. 

Katrín sagði ríkisstjórnina forgangsraða í þágu hinna ríku með því að afnema auðlegðarskatt, afnema orkuskatt, lækka skatta á „alla nema hina tekjulægstu.“

„Svo taka forkólfar ríkisstjórnarinnar upp orðaleppa Repúblíkanaflokksins bandaríska um að hinir tekjulágu borgi nú bara alls engan skatt því að þeirra skatttekjur renni allar í útsvar sveitarfélaganna. Það gerði ríkisstjórnin með því að lækka veiðigjöldin á stórútgerðina sem síðan hefur notað hvert tækifæri til að borga eigendum sínum ríkulegan arð, arðinn af auðlindinni sem fólkið í landinu á,“ sagði formaðurinn í ræðu sinni.

Þá sagði hún ríkisstjórnina með markvissum hætti veikja allar tekjur ríkisins og skera fremur niður hjá hinu opinbera „til að skerða almannaþjónustu.“ 

Katrín hélt áfram að skjóta föstum skotum að ríkisstjórninni og sagði þann efnahagsbata, sem ríkisstjórninni væri svo tíðrætt um, ekki skila sér með réttlátum hætti til allra.

„Með markvissum aðgerðum má tryggja að vöxturinn nýtist fyrst og fremst hinum ríku og svo má afsaka sig með brauðmolakenningunni um að velgengnin muni líka skila sér til hinna fátæku á endanum – hvenær sem hann nú kemur. En þessi brauðmolakenning er í öndunarvél. Raunar er þegar búið að úrskurða hana látna af OECD og fleiri íhaldsstofnunum á sviði efnahagsmála, en ríkisstjórn Íslands tók á móti henni, líklega eina pólitíska flóttamanninum, sem hún vill hleypa inn í landið, og notfærir sér hana til að rökstyðja stefnu sína – sem byggist fyrst og fremst á trúarsetningu en minna á skynsemi eða reynslu.“

Fyrri frétt mbl.is:

„Við erum aflögufær þjóð“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á landsfundi í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á landsfundi í dag. mbl.is/KHJ
mbl.is

Bloggað um fréttina