Grunaður um alvarlegt ofbeldi

Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Noregi.
Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Noregi. mbl.is

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Noregi, grunaður um að hafa beitt tveggja ára barn alvarlegu ofbeldi. Barnið dvelur á sjúkrahúsi í Stavanger. Maðurinn er sagður vera íslenskur.

Í frétt Stavanger Aftenblad kemur fram að um ríkisborgara frá Norðurlöndunum sé að ræða en DV greinir frá því að um Íslending sé að ræða. Ekki fengust upplýsingar um málið þegar mbl.is hafði samband við lögregluna í Stavanger nú síðdegis.

Í frétt norska miðilsins segir að hinn grunaði sé ekki faðir barnsins en hafi verið í sambandi með móður þess. Haft er eftir lögreglu að málið sé litið mjög alvarlegum augum. Maðurinn var handtekinn á föstudag og í kjölfarið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Talið var að maðurinn myndi reyna að flýja land eða eyðileggja sönnunargögn tengd málinu.

Grunur leikur á að maðurinn hafi bæði beitt barnið ofbeldi á heimili þess og utan heimilisins. Í frétt Stavanger Aftenblad kemur fram að hinn grunaði hafi ekki hlotið dóm í Noregi en hann hafi aftur á móti hlotið dóm í heimalandi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert