Fréttablaðið stendur við umfjöllunina

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365
Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365 mbl.is

Fréttablaðið stendur við forsíðufrétt gærdagsins og segir aðalritstjóri blaðsins að ekkert í frétt blaðsins gefi ástæðu til að bera efnisatriði þar til baka. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Kristínu Þorsteinsdóttur.

„Það sem yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur við hana að athuga er, að sagt sé að íbúðin hafi verið „sérútbúin“ eins og lögfræðingurinn orðar það. Hvergi er það orð að finna í frétt okkar, hvorki í gær né í fyrri fréttum um málið. Fréttablaðið hefur staðfestar heimildir fyrir því, að tól og tæki í íbúðinni hafi verið gerð upptæk. Það sem skiptir máli er, að kærur, sem staðfesta fréttirnar, eru komnar fram,“ segir í yfirlýsingunni sem birt er á vef Vísis.

Í fréttinni, sem bar fyrirsögnin „Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana“, var fjallað um meint kynferðisbrot sem kærð voru til lögreglu í síðasta mánuði. Þar var greint frá því að rannsókn lögreglu í málunm beinist að húsnæði í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík, þar sem talið er að árásirnar hafi átt sér stað. „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar,“ sagði meðal annars í fréttinni.

Þá sagði einnig að „samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana,“ sagði í fréttinni.

Rætt var við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðing á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær, sagði að orðum aukið að íbúð í Hlíðahverfinu í Reykjavík hafi verið „sérútbúin fyrir þessar athafnir.“

Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér í gær sagði að nauðsyn­legt væri þó að taka fram að sumt í um­fjöll­un fjöl­miða sé ekki í sam­ræmi við fyr­ir­liggj­andi rann­sókn­ar­gögn lög­reglu.

Fram kom í viðtali við Vilhjálm H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmanns, sem er lögmaður annars mannsins sem hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hann hefur sent kröfubréf á Kristínu Þorsteinsdóttur fyrir hönd þeirra kærðu í málinu. Þar er gerð krafa um leiðréttingu fréttarinnar og afsökunarbeiðni auk þess sem mennirnir fara hvor um sig fram á 10 milljónir króna í miskabætur.

Frétt Fréttablaðsins frá því í gær (9.11.2015).
Frétt Fréttablaðsins frá því í gær (9.11.2015).
mbl.is

Bloggað um fréttina