Rannsókn á Strawberries að ljúka

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest kyrrsetningu á eignum sem tengjast kampavínsklúbbnum Strawberries en hann hafði áður ómerkt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur vegna dráttar á honum. Rannsókn á stórfelldum skattalagabrotum og peningaþvætti sem sagt er hafa tengst staðnum á að ljúka í byrjun næsta árs.

Héraðsdómur féllst á kyrrsetningu tiltekinna eigna, þar á meðal fasteigna, bifreiða og báts, til tryggingar á greiðslu sakarkostnaðar, sekta og krafna ákæruvaldsins með úrskurði 12. október. Hæstiréttur ómerkti hins vegar þann úrskurð þar sem að meira en fjórar vikur liðu frá því að málið var tekið til úrskurðar þar til hann var kveðinn upp.

Málið var flutt aftur og úrskurðaði héraðsdómur á sama hátt. Maðurinn sem krafan beinist að áfrýjaði úrskurðinum til Hæstaréttar sem staðfesti hann í gær.

Kyrrsetningarkrafan var sett fram í kjölfar rannsóknar á ætlaðri sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanna og starfsmanna Strawberries. Rannsókn á þeim þætti málsins var felld niður en við rannsókn á staðnum vaknaði grunur um stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti. Þau brot eru nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra en talið er að undanskotin nemi tugum milljóna króna.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skattarannsóknastjóri áætli að ljúka rannsókninni í byrjun næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert