Hefðu getað bjargað Sæmundi fróða

Haukur tók þátt í að bjarga að minnsta kosti sex …
Haukur tók þátt í að bjarga að minnsta kosti sex bátum við gömlu bryggjuna. mbl.is/Eggert

Haukur Vagnsson, eigandi farþegabátsins Hesteyrar ÍS 95, segir að auðveldlega hefði mátt bjarga Sæmundi fróða, sem er annar bátanna sem sukku við suðurbugtina við gömlu höfnina í Reykjavík í nótt og er í eigu Háskóla Íslands.

Haukur var að athuga með bátinn sinn, sem er bundinn innar í höfninni, og ákvað að kíkja yfir á hitt svæðið. Lögreglan hafi aftur á móti meinað almenningi, þar á meðal bátseigendum, að fara út á bryggjuna í óveðrinu.

Undrast bann lögreglunnar

„Það var lítið gat á nefinu á honum og það var að höggva í bryggjuna. Það hefði verið mjög auðvelt að setja band úr skutnum niður í næstu bryggju og halda honum frá þessari þannig að hann væri ekki að skella utan í bryggjuna. Þessi flotbryggja heldur ekki við bátana þegar aldan kemur undir og þeir skella framfyrir,“ útskýrir Haukur og undrast bann lögreglunnar.

„Þetta eru sjómenn sem vita hvað þeir eru að gera og eru vanir svona aðstæðum. Þetta er eins og að banna slökkviliðsmanni að slökkva í ruslatunnu fyrir utan húsið sitt og láta húsið bara brenna. Það verður að treysta því að menn hafi vit fyrir sér og bjargi sínum eigum ef þeir telja sig geta gert það.“

Umsjónarmaður fékk ekkert að vita 

Hann bætir við að enginn hefði látið umsjónarmann bátsins vita þrátt fyrir að þrjár klukkustundir hefðu liðið frá því að ljóst var hvað var í gangi. „Ég fór í bílinn að leita að því hver ætti þennan bát til að láta vita. Þá sé ég að hann er byrjaður að sökkva. Tveimur mínútum seinna kemur umsjónarmaðurinn. Það er sorglegt að menn skuli ekki hafa fengið að bjarga honum því það hefði verið mjög auðvelt.“

Fékk engin sms-skilaboð

Yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna sagði í morgun að send hefðu verið út sms-skilaboð til eigenda bátanna í gömlu höfninni í fyrrakvöld til að vara við veðrinu. Haukur segist aldrei hafa fengið skilaboðin. „Ég veit ekki um neinn eiganda sem fékk þetta sms. Ég fékk alla vega ekki sms og enginn af þeim eigendum þessara báta sem ég hitti þarna.“

Bjargaði sex bátum 

Haukur tók þátt í að bjarga að minnsta kosti sex bátum frá því að sökkva eftir að lögregla og slökkvilið gáfu eigendum grænt ljós á að bjarga bátunum sínum. „Mér rann blóðið til skyldunnar. Ég sá strax hvað þurfti að gera og við fórum í það að bjarga því sem bjargað varð.“

Þarf að færa bátana í tæka tíð

Sjálfur segist hann hafa lært af reynslunni frá því í hitteðfyrra þegar báturinn hans var bundinn við suðurbugtina. Hann hafi skemmst í óveðri sem þá var og ákvað Haukur í framhaldinu að binda hann við aðra bryggju. „Það vita allir hvernig ástandið er á þessari flotbryggju. Þegar það kemur austanátt inn á þetta svæði þarf að láta menn færa bátana sína áður en svona óveður skellur á,“ segir Haukur.

Haukur Vagnsson.
Haukur Vagnsson. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert