„Þetta var bara ágætis tilbreyting“

Lokið var að reisa átta raf­magns­staura í Öxarf­irði skömmu fyr­ir …
Lokið var að reisa átta raf­magns­staura í Öxarf­irði skömmu fyr­ir klukk­an sjö í morg­un og kom þá raf­magn á alla bæi þar sem höfðu verið án raf­magns í meira en sól­ar­hring. mbl.is/Rax

Jón Halldór Guðmundsson, bóndi á Ærlæk II í Öxarfirði, og fjölskylda hans voru án rafmagns í tæpar þrjátíu klukkustundir. Rafmagnið fór af eftir miðnætti aðfaranótt þriðjudags og kom á klukkan hálf sjö í morgun.

Lokið var að reisa átta raf­magns­staura í Öxarf­irði skömmu fyr­ir klukk­an sjö í morg­un og kom þá raf­magn á alla bæi þar sem höfðu verið án raf­magns í meira en sól­ar­hring.

„Þetta var bara ágætis tilbreyting,“ segir Jón Halldór, frekar brattur, þegar blaðamaður mbl.is nær tali af honum. Ekki er vararafstöð á bænum en fjölskyldan á bæði gasofna og útvarp sem gengur fyrir rafhlöðum.  

Frétt mbl.is: Án rafmagns í 29 klukkustundir

Hvað höfðuð þið fyrir stafni? „Við gátum hlustað á útvarp,“ svarar Jón Halldór og bendir á að frostlaust hafi verið allan tímann og því hafi fjölskyldunni ekki orðið jafn kalt og ella. Fjölskyldan er aðeins með fé, ekki kýr og því þurfti ekki að mjólka.

Ekki í fyrsta skipti sem þær fara niður

„Við erum búin að vera að keyra ljósavélar síðan klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags,“ segir Benedikt Kristjánsson, bóndi á Þverá í Öxarfirði og starfsmaður í fiskeldinu Silfurstjörnunni. Mun kostnaðarsamara er að nota ljósavélar og er tjón fyrirtækisins því nokkuð. Vonast er til þess að rafmagn komist á um fjögurleytið í dag, í það minnsta til bráðabirgða.

„Fiskeldið algjörlega háð rafmagnið þannig að við erum með ljósavélar sem við getum keyrt allt rafmagn á.  Ætli það sé ekki fjórfaldur eða meiri kostnaður að keyra þetta á vélunum. Þetta er algjört neyðarbrauð, svona óöryggi,“ segir Benedikt.

„Þetta er vont ástand. Línurnar hérna eru mjög lélegar á þessu svæði, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þær fara niður og það tekur marga daga að gera við,“ segir Benedikt. Ekki eru mörg ár síðan fyrirtækið þurfti að keyra ljósavélarnar í fjóra til fimm daga. Ekki hefur orðið tjón á fiskeldinu vegna rafmagnsleysisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert