Fluttu frá Staðastað vegna raka

Prestbústaðurinn að Staðastað.
Prestbústaðurinn að Staðastað. mbl.is/Sigurður Bogi

Sóknarpresturinn á Staðastað á Snæfellsnesi flutti nýlega af prestssetrinu á staðnum og afhenti þjóðkirkjunni húsnæðið á ný eftir að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands leit svo á í skýrslu sinni að húsið væri óíbúðarhæft og ráðlagði fjölskyldunni að flytja þaðan þar til viðgerð hefur farið fram.

Presturinn keypti húsnæði í Borgarnesi og er fluttur þangað ásamt fjölskyldu sinni. Viðgerðir eru hafnar á Staðastað og segir biskupsritari honum bera skylda til að flytja aftur að Staðastað þegar viðgerð er lokið.

Silfurskottur lifðu góðu lífi í húsinu, ársgamall sonur prestsins þjáðist af óútskýrðum kvillum og mætti fúkkalykt starfsmanni Heilbrigðiseftirlitsins þegar hann kom að kanna húsnæðið.

Sr. Páll Ágúst Ólafsson varð hlutskarpastur í kosningu um embætti sóknarprests í Staðastaðarprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi í nóvember árið 2013. Hann flutti ásamt konu sinni og þremur börnum í íbúðarhúsnæði á Staðastað í ágúst í fyrra.

Alvarlegar athugasemdir við raka

Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, staðfestir í samtali við mbl.is að húsið hafi verið metið óíbúðarhæft.

Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins sem mbl.is óskaði eftir frá heilbrigðiseftirlitinu vegna málsins segir að í kjallara hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við raka sem finna mátti í gólfplötu svefnherbergja, þvottaherbergis og millibyggingu þar sem sem tréveggir eru blautir og frauðplastseinangrun er klædd með timburklæðningu. Heilbrigðiseftirlitið taldi að kanna þyrfti drenlögn meðfram húsinu, athuga þyrfti einangrun gólfa í kjallara og þá virðist millibygging ónýt sökum raka.

Í skýrslunni sagði einnig að í gegnum árin hafi silfurskottur fundist í húsnæðinu og hafi nokkrum sinnum við eitrað til að útrýma þeim. „Kjörlendi silfurskotta er raki og hiti þannig að þær geta leynst í veggjum í sökklum og undir gólfi,“ segir í skýrslunni.

Eftir að niðurstaða eftirlitsins lá fyrir þann 19. október sl. sáu hjónin sér þann kost vænstan að kaupa hús í Borgarnesi og flytja þangað en von er á nýjasta fjölskyldumeðliminum í heiminn á næstu dögum.

Þegar skýrsla Verkís lá fyrir kom í ljós að fara …
Þegar skýrsla Verkís lá fyrir kom í ljós að fara þurfti í töluverðar framkvæmdir á húsinu í því skyni að gera það íbúðarhæft. mbl.is/RAX

Þungt loft og myglublettir víðsvegar í húsinu

Spurður um málið segir Páll Ágúst að um mánuði eftir að fjölskyldan flutti inn hafi þau ítrekað komið auga á silfurskottur í húsinu. Fengu hjónin meindýraeyði til að eitra fyrir silfurskotturnar og kom hann fjórum sinnum á staðinn án árangurs, skotturnar skutu alltaf upp kollinum á ný.

Páll segir að hjónin hafi fyrst um sinn lagt mikla áherslu á að halda húsinu hreinu í hverju horni í þeirri von að halda silfurskottunum í burtu. Fljótlega varð þeim þó ljóst að silfurskottufaraldurinn átti rætur að rekja til raka í húsnæðinu.

Prestshjónin komu auga á myglubletti víðsvegar í húsinu í mars á þessu ári. Afar þungt loft var í húsinu og varð að hafa alla glugga opna svo líft væri í húsinu. Einn daginn fann Páll Ágúst þúsundfætlu í einu herbergi hússins og í kjölfarið hafði hann samband við kirkjumálasjóð, eiganda hússins. Gerði hann honum grein fyrir raka, myglu og meindýrum. 

Fulltrúi verkfræðistofunnar Verkís var fenginn til að taka út húsnæðið og lá meðal annars fyrir eftir athugun hans að á jarðhæðinni var allt að 100% raki í gólfi og á sumum stöðum í húsinu fór myglan yfir skalann sem mælingin miðast við. Hjónin þrifu húsið nokkrum sinnum í viku og er því talið að gildin hafi mælst lægri en ella. Þegar skýrsla Verkís lá fyrir kom í ljós að fara þurfti í töluverðar framkvæmdir á húsinu í því skyni að gera það íbúðarhæft.  

Staðastaðarkirkja á Snæfellsnesi.
Staðastaðarkirkja á Snæfellsnesi. Ljósmynd/Kirkjan.is

Drengurinn laus við lyfin

Í samtali mbl.is við Pál Ágúst kemur fram að yngsti fjölskyldumeðlimurinn hafi fæðst í maí í fyrra og hafi því búið stóran hluta ævinnar á Staðastað. Hefur hann lengi verið með óútskýrða kvilla, sofið lítið, borðað illa og almennt verið óvær.

Fóru hjónin á milli barnalækna til að leita lausna en ekki fékkst sjúkdómsgreining. Þegar niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Verkís lágu fyrir ræddu þau við lækna á ný og fengu þau svör að ef þetta reyndist rétt þá þyrfti að koma börnunum og Karen Lind, eiginkonu Páls Ágústs sem er barnshafandi, í öruggt skjól og úr húsnæðinu sem fyrst.

Tæpri viku eftir að Karen Lind og börnin þrjú fluttu frá Staðastað þurfti drengurinn ekki lengur á lyfjunum að halda, sem honum voru gefin svo hann gæti sofið, og er líðan hans umbreytt að sögn Páls Ágústs. Segir hann þau hjónin hafa fengið vægt áfall þegar þau áttuðu sig á því að yfirgnæfandi íkur væru á því að rakinn og myglan í húsnæðinu yllu drengnum kvillunum sem hann er búinn að vera að kljást við. 

Ber að taka við húsnæðinu á ný

Arnór Skúlason, verkefnisstjóri á fasteignasviði hjá Biskupsstofu, segir í samtali við mbl.is að viðgerðir séu hafnar og búið sé að koma dreni fyrir við húsið. Hann segist gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í janúar á næsta ári.

Þorvaldur Víðisson biskupsritari segist ekki gera ráð fyrir öðru en að Páll Ágúst geti flutt aftur að Staðastað innan tíðar.

„Það lá fyrir alveg frá upphafi að til viðbótar við þá þjónustuskyldu að sinna sóknarprestsembættinu bar þeim sem yrði fyrir valinu að sinna skyldum héraðsprests. Þarna er um þetta embætti að ræða sem er staðsett þarna á þessum stað og svo framarlega sem húsnæðið verður lagfært, og það er ekkert sem bendir til annars en að það eigi eftir að ganga vel, þá ber honum sem sóknarpresti á Staðastað að taka við því húsnæði aftur,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

„Framkvæmdum ætti að vera lokið í febrúar og þá strax í kjölfarið hlýtur það að vera niðurstaðan að hann komi þarna aftur. Nákvæmlega hvenær verðum við að finna út úr í samstarfi við hann,“ segir Þorvaldur einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert