Myndlist tekur yfir Marshall-húsið

Hafnarhlið Marshall-hússins. Í vinstri endanum verður sýningarrými Ólafs Elíassonar.
Hafnarhlið Marshall-hússins. Í vinstri endanum verður sýningarrými Ólafs Elíassonar. mbl.is/Árni Sæberg

Marshall-húsið við Grandagarð í Reykjavík mun í haust fá nýtt hlutverk sem menningar- og myndlistarmiðstöð við Reykjavíkurhöfn. Ólafur Elíasson myndlistarmaður, Nýlistasafnið og listamannarekna galleríið Kling og Bang munu þá flytja inn í húsið sem verður opnað almenningi. Á jarðhæð hússins mun verða opnaður veitingastaður með áherslu á fiskrétti.

Sýn arkitekanna í Kurtogpí á ein salinn í Marshall húsinu
Sýn arkitekanna í Kurtogpí á ein salinn í Marshall húsinu



Fyrirhugað er að Ólafur verði með vinnustofu á efstu hæð hússins og nýti hluta suðurendans, þar sem lofthæð er mikil, fyrir sýningarsal með innsetningum eða sérstökum verkum sem jafnvel munu vera sýnd í allt að ár í senn. Nýlistasafnið og Kling og Bang fá síðan sitthvora hæðina til umráða, fyrir sali þar sem settar verða upp fjölbreytilegar sýningar.

Marshall-húsið var byggt árið 1948, meðal annars fyrir tilstilli Marshall-aðstoðarinnar sem Bandaríkjamenn veittu þjóðinni eftir stríð og er heiti hússins sótt í hana. Húsið var byggt sem síldarbræðsla og gegndi því hlutverki í um hálfa öld, en hefur staðið autt síðustu ár.

HB Grandi er eigandi hússins og hefur Reykjavíkurborg gert samning við fyrirtækið um leigu á húsnæðinu til fimmtán ára og mun borgin framleigja fyrrnefndum aðilum.

Útlitsteikning af Marshall húsinu.
Útlitsteikning af Marshall húsinu.

Fyrir grasrótarstofnanir

Hugmyndin að þessum breytingum á hlutverki Marshall-hússins kviknaði hjá arkitektunum Ásmundi Hrafni Sturlusyni og Steinþóri Kára Kárasyni sem reka stofuna Kurt og Pí og Berki Arnarsyni hjá i8 galleríi. Ásmundur segir að fyrir um tveimur árum hafi hann vitað að þessar tvær mikilvægu grasrótarstofnanir, Nýlistasafnið og Kling og Bang, væru að missa húsnæði sitt í miðborginni, auk þess sem Ólafur Elíasson væri að svipast um eftir húsnæði fyrir vinnustofu. Þá tóku þeir félagar málið upp við forsvarsmenn HB Granda sem tóku hugmyndunum þeirra vel. Og málin hafa þróast með þeim hætti að Reykjavíkurborg hefur samið við HB Granda um leiguna og eru framkvæmdir að hefjast við að undirbúa þessa nýju starfsemi.

Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson.
Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson. Ljósmynd Sigurgeir Sigurjónsson

„Okkur líður eins og Nýló geti almennilega breitt úr vængjunum í rými sem að veldur hugsjón safnsins,“ segir Þorgerður Ólafsdóttir, formaður Nýlistasafnsins. Markmið safnsins í dag er að vera miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist.

Nýlistasafnið hefur síðustu misseri verið starfrækt í Völvufelli í Breiðholti og þar verður merk safneigninn áfram en sýningastarfsemin flytur í Marshall-húsið. Þorgerður segir að þessi starfsemi komi án efa til með að hafa mjög mikil og góð áhrif á Grandasvæðið, og á menningarlífið í borginni.

Kling & Bang gallerí var stofnað af tíu myndlistarmönnum í byrjun árs 2003 og er stefna þess að sýna myndlist sem ögrar samhengi og innihaldi skapandi hugsunar. Hefur starfsemin vakið verðskuldaða athygli, heima og erlendis.

„Þetta verður talsverð breyting fyrir okkur, fyrir það fyrsta erum við húsnæðislaus núna,“ segir Ingibjörg Sigurjónsdóttir, einn aðstandenda Kling & Bang. „En við fáum líka stærra sýningarrými en við höfum áður haft. Það gerir okkur kleift að vera með tvo sýningarsali og tvær sýningar í einu og þá jafnvel með ólíkum áherslum, sem okkur finnst mjög spennandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert