Fordæmisgefandi dómur í Landsbankamáli

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið).
Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið). mbl.is/Árni Sæberg

Saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans segir dóm Hæstaréttar í dag í samræmi við það sem lagt var upp með, sérstaklega að sakfellt sé fyrir allt tímabilið. Þetta segir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í samtali við mbl.is. Áður hafði héraðsdómur aðeins sakfellt fyrir mikil kaup bankans á eigin bréfum síðustu vikuna fyrir yfirtöku hans, en ekki allt ákærutímabilið, sem var rúmlega eitt ár.

Hæstiréttur þyngdi dóma héraðsdóms og dæmdi Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóra, í 18 mánaða fangelsi í þessu máli.Þá var Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður deildar eigin fjárfestinga bankans dæmdur í 2 ára fangelsi. Tveir starfsmenn deildarinnar voru einnig sakfelldir. Júlíus S. Heiðarsson fékk 1 árs fangelsi og Sindri Sveinsson fékk níu mánuði.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Þórður

Arnþrúður segir ljóst að brotin séu litin alvarlegum augum. „Þetta eru allt óskilorðsbundnir dómar óháð því hvaða stöðu menn gegndu innan bankans. Í tilviki ákærða Sigurjóns er um hegningarauka að ræða þannig að refsingin er höfð með hliðsjón af dóminum í svokölluðu Ímon-máli,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún telji málið fordæmisgefandi telur hún svo vera. „Ljóst að mál Kaupþings bíður afgreiðslu í Hæstarétti. Þetta er svipuð háttsemi þó engin tvö mál séu eins,“ segir hún. Markaðsmisnotkunarmál Kaupþings var tekið fyrir í héraðsdómi síðasta vor, en það bíður nú afgreiðslu Hæstaréttar.

mbl.is