Sjónvarpsstöðin ÍNN er til sölu

Ingvi Hrafn Jónsson.
Ingvi Hrafn Jónsson. mynd/ÍNN

Ingvi Hrafn Jónsson, eigandi og sjónvarpsstjóri ÍNN, hefur í hyggju að draga sig í hlé, alveg eða að hluta til, og hefur fengið Kontakt, sérfræðinga í fyrirtækjaviðskiptum, til að kanna áhuga aðila á að fjárfesta í stöðinni að hluta eða öllu leyti. Þetta kom fram í auglýsingu frá Kontakt, sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag.

„Það fer eftir því hvernig úr þessu vinnst. Ég er alveg tilbúinn á meðan ég hef heilsu og nennu til að halda áfram að gera þætti,“ sagði Ingvi Hrafn í samtali við Morgunblaðið þegar hann var spurður hvað hann hygðist taka sér fyrir hendur, ef hann seldi sjónvarpsstöðina.

Út á hægri vænginn

„Annars gerir maður bara eins og gamlir hershöfðingjar; lætur sig hægt og bítandi hverfa út á hægri vænginn,“ sagði Ingvi Hrafn.

„Það hafa einhverjir áhugasamir verið að spyrjast fyrir um fyrirtækið og snusa. Það sem ég hef mestan áhuga á er að yngra fólk komi að rekstri sjónvarpsstöðvarinnar. Yngra fólk, sem myndi vilja halda áfram því sem við höfum verið að gera; að fjalla sem mest um atvinnuvegina á Íslandi og fólkið í atvinnulífinu. Það er stefna ÍNN,“ sagði Ingvi Hrafn.

Aðspurður hvort hann væri búinn að setja verðmiða á sjónvarpsstöðina ÍNN sagði Ingvi Hrafn: „Nei, ég læt þá alveg um það, Kontaktmennina. Ég er þokkalegur blaðamaður, en þeir Kontaktmenn eru góðir í því að selja fyrirtæki.“

Sjónvarpsstöðin ÍNN verður níu ára í næsta mánuði. Hjónin Ingvi Hrafn og Ragnheiður Sara Hafsteinsdóttir stofnuðu stöðina í mars 2007. Ingvi Hrafn hefur öll árin frá stofnun haldið úti þætti sínum Hrafnaþingi.

Aðrir þætti á ÍNN sem náð hafa ákveðnum vinsældum eru m.a. Eldhús meistaranna, Á ferð og flugi, Skuggaráðuneytið og Auðlindakistan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert