Stýrir almenningsálit ákvörðunum?

Innanríkisráðuneytið er til húsa við Sölvhólsgötu 7, gegnt Seðlabankanum.
Innanríkisráðuneytið er til húsa við Sölvhólsgötu 7, gegnt Seðlabankanum. mbl.is/Golli

Boðað hefur verið til mótmæla við innanríkisráðuneytið í dag klukkan 13. Að sögn aðstandenda þeirra er tilgangurinn að mótmæla brottvísunum þriggja hælisleitenda sem til stóð að flytja úr landi í nótt.

Frétt mbl.is: Ekki fluttir úr landi í nótt

„Þó brottvísunum þeirra hafi verið frestað í gærkvöldi hafa þeir enn enga vissu um hvort þeir fái að dvelja hér. Við krefjumst þess að þeir, ásamt Eze Okafor sem nýlega fékk sambærilega brottvísunartilkynningu, hljóti dvalarleyfi af mannúðarástæðum og fái leyfi til að dvelja hér áfram og búa sér mannsæmandi líf,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum mótmælanna.

Að þeim standa samtökin No Borders Iceland og Ekki fleiri brottvísanir. Skora þau á ráðherra að „hætta að fela sig á bak við andlitslausa skriffinna Útlendingastofnunar.“

„Reglur gætu verið í samræmi við yfirlýsingar“

„Samkvæmt ákvæðum útlendingalaga getur ráðherra þó sett frekari reglur um útgáfu dvalarleyfis fyrir flóttamenn en þær sem tilteknar eru í lögum. Reglur þær sem ráðherra setur gætu til að mynda verið í einhverju samræmi við fyrri yfirlýsingar hennar sjálfrar frá því í haust, um að ómannúðlegt sé að senda flóttamenn aftur til Ítalíu, Grikklands og Ungverjalands.

Slíkar reglur gætu einnig miðað að því að gefa skuli út dvalarleyfi af mannúðarástæðum eftir að flóttamaður hafi beðið allt of lengi eftir úrlausn sinna mála, þó ekki væri nema eftir tvö ár líkt og Kærunefnd útlendingamála hefur stuðst við, þó eðlilegri tímarammi væri um sex mánuðir,“ segir í tilkynningunni, en fram hefur komið að Christian Boa­di og Mart­in Omulu hafa dvalið hér á landi í fjög­ur ár og eru báðir með at­vinnu- og dval­ar­leyfi hér á landi.

Samtökin spyrja af hverju Útlendingastofnun hafi ekki brugðist fyrr við.
Samtökin spyrja af hverju Útlendingastofnun hafi ekki brugðist fyrr við. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einn dag til að kveðja ástvini eftir fjögur ár

Samtökin segjast fordæma með hvaða hætti tilkynning um brottvísun mannanna var birt, en þau segja lögreglu hafa hringt í þá persónulega í stað þess að hafa samband við lögfræðing þeirra. Þá hafi þeim eingöngu verið gefinn einn virkur dagur til að ganga frá málum sínum fyrir brottflutning. 

Eftir þriggja til fjögurra ára búsetu í landinu tekur lengri tíma en einn dag að ganga frá föggum sínum, kveðja ástvini og, í þessu tilfelli, kanna lagalega stöðu sína sem var í öllum tilfellum nokkuð óljós.“

Segir svo að samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra hafi honum borist beiðni um brottvísun mannanna þriggja frá Útlendingastofnun fyrir um tíu dögum síðan. Síðan þá hafi það verið á valdi bæði Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins að draga þá beiðni til baka.

„Það var svo loks gert í gærkvöldi af hálfu Útlendingastofnunar að því er segir til að veita lögmönnum mannanna færi á að biðja um endurupptöku málsins. Við bendum á að fyrst Útlendingastofnun hafði tíu daga til að „uppgötva“ að ekki ætti að vísa þeim úr landi, hvers vegna brást hún ekki við fyrr en eftir að málin komust í hámæli fjölmiðla?“

Samtökin krefjast þess að fjórir menn fái dvalarleyfi á Íslandi.
Samtökin krefjast þess að fjórir menn fái dvalarleyfi á Íslandi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ráðherra „reynt að fjarlægja sig frá ákvörðunum“

„Hvort er stofnunin með þessum hætti að lýsa því yfir að hún sjálf hafi gert mistök með því að veita þeim ekki færi á þessu áður, eða sýnir þessi gjörð fram á að allar hennar ákvarðanir stýrist alfarið af almenningsáliti?“

Að lokum segir að hvort sem um sé að ræða þá heyri Útlendingastofnun undir Innanríkisráðuneytið.

„Allt frá því Ólöf Nordal tók við sem ráðherra hefur hún reynt sem best hún getur að fjarlægja sig frá ákvörðunum þessarar undirstofnunar sinnar. Það er þó kominn tími á að ráðuneytið fari að taka á sífelldum og endurteknum mistökum og klúðri stofnunarinnar með róttækum hætti.

Við krefjumst þess að héðan í frá verði málum þannig háttað að tilkynningar um brottvísanir verði gefnar með sanngjörnum fyrirvara, að ávallt verði haft samband við lögfræðing viðkomandi og honum gefið færi á að kæra ákvörðunina. Við krefjumst þess einnig að notkun Dyflinnarreglugerðarinnar verði hætt og úrskurðir byggðir á henni felldir úr gildi. Við krefjumst þess að Chris, Eze, Idafi og Martin hljóti dvalarleyfi hér, hvernig sem sú ákvörðun verður tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert