Ákvörðun um bæjarskrifstofur í vikunni

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Niðurstöður um framtíðaráform Kópavogsbæjar með bæjarskrifstofur gætu legið fyrir í vikunni, en Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir lítið því til fyrirstöðu ef ekkert komi upp á sem dragi ákvörðunarferlið. Í heildina eru þrjár grunnhugmyndir í gangi; hvort ráðast eigi í miklar endurbætur á núverandi húsnæði og vera þar áfram, kaupa húsnæði sem er hentugt eða að láta byggja nýtt húsnæði.

Málið hefur verið talsvert í umræðunni og eru bæjarfulltrúar ekki á einu máli með hver sé skynsamlegasta niðurstaðan. Meðal annars var horft til þess að taka ákvörðun í fyrra um að flytja skrifstofurnar í Norðurturninn, en sex bæjarfulltrúar af ellefu kusu um að fresta ákvörðuninni. Höfðu bæjarfulltrúar meðal annars haft mismunandi skoðanir um aukna skuldsetningu bæjarins vegna málsins.

Kostar 600 milljónir að fara í endurbætur

Þær leiðir sem nú liggja fyrir og þarf að taka ákvörðun um eru hvort bærinn ætli að vera áfram í á sama stað, en Ármann segir að það liggi fyrir að það muni kosta allavega 300 milljónir að fara í endurnýjun á efstu hæð á núverandi fasteign í Fannborg 2-6 við miðbæinn í Hamraborg. Viðhald á þeirri hæð er mest aðkallandi, en meðal annars hafa komið fram rakaskemmdir og sveppur og þá þarf að ráðast í talsverðar umbætur á þaki hússins.

Einnig er kominn tími á endurbætur á næst efstu hæð hússins og víðar í húsinu og segir Ármann að heildarupphæð þess verkefnis yrði aðrar 300 milljónir. Heildarkostnaður við endurbætur núverandi bæjarskrifstofu liggur því í kringum 600 milljónir í heildina.

Kaup á húsnæði í Turninum eða Norðurturni

Næsta leið er að selja núverandi húsnæði og kaupa annað húsnæði sem Ármann segir að gæti verið talsvert hagstæðara fyrir bæinn. Bendir hann á að á núverandi stað séu skrifstofurnar á 4.700 fermetrum á 8 hæðum í þremur húsum. Með því að skipta í hentugra húsnæði segir hann að hægt væri að fara niður í 3.200-3.500 fermetra.

Þær hugmyndir sem er hvað helst horft til varðandi að …
Þær hugmyndir sem er hvað helst horft til varðandi að flytja skrifstofurnar er í Norðurturninn eða Turninn. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þær tvær hugmyndir sem hafa komið fram um flutning eru að færa skrifstofurnar í Turninn, þar sem Deloitte er nú til húsa eða í Norðurturninn. Segir Ármann að ef ákveðið væri að fara í Deloitte-turninn þyrfti að ráðast í viðbyggingu við hann og áætlaður flutningur væri á um 18 mánuðum. Varðandi Norðurturninn væri horft til þess að klára flutning á 6-8 mánuðum.

Nýbygging við Molann

Þriðja leiðin sem komið hefur upp er svo að byggja nýtt húsnæði undir skrifstofurnar. Hefur meðal annars verið skoðaður möguleiki á að byggja við Molann.

Tvö tilboð borist upp á 700 milljónir

Ármann segist sjálfur vilja kaupa nýtt húsnæði fyrir bæjarskrifstofurnar. Aðspurður hvers vegna hinar leiðirnar hugnist honum ekki segir hann að miðað við útreikninga Mannvits, þar sem kostnaður hverrar leiðar var uppreiknaður til 25 ára, hafi niðurstaðan verið sú að það kostaði um 120-150 milljónum meira að vera á núverandi stað en að flytja. Til viðbótar hafi þó verið miðað við lægra verð en borist hefur í núverandi húsnæði, en tvö tilboð hafa borist upp á um 700 milljónir. Annað þeirra var frá Kvikmyndaskóla Íslands en hitt kom í gegnum fasteignasölu.

Bæjarskrifstofur Kópavogs eru í Fannborg 2-6 í dag, en þær …
Bæjarskrifstofur Kópavogs eru í Fannborg 2-6 í dag, en þær eru við miðbæjarkjarnann í Hamraborg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þá segir hann hugmyndina um uppbyggingu nýs húss ekki hljóma vel í sínum eyrum. Bæði væri um að ræða nokkurra ára verkefni auk þess sem fjárhagsleg áhætta félli á bæinn vegna verkefnisins. Bendir hann á að mikill meirihluti opinberra verkefna eigi það til að fara fram úr áætlun. Tíminn sem það taki að byggja nýtt hús kalli einnig á að farið verði í endurbætur í Fannborg og niðurstaðan af því verði dýr.

„Við erum að nálgast lokapunkt

„Við erum að nálgast lokapunkt í þessu,“ segir Ármann, aðspurður hvenær niðurstöðu sé að vænta. Segir hann að fjölmörg tilboð hafi borist í núverandi húsnæði, en að tvö þeirra standi upp úr upp á um 700 milljónir. „Ég vonast til að ákvörðun í þessum málum liggi fyrir í næstu viku,“ segir hann og bætir við að það ætti að vera líklegt ef málið fari ekki að þvælast fyrir bæjarfulltrúum.

Kópavogshælið gæti orðið móttökuhús

Til viðbótar við allar hugmyndir um flutning, kaup eða nýbyggingar er svo til skoðunar hvað hægt sé að gera við gamla Kópavogshælið. Er meðal annars horft til þess að nýta húsið sem móttökuhús fyrir bæinn og fundarstað fyrir bæjarstjórnarfundi.

Var húsið í niðurníðslu fyrir nokkrum árum þegar bærinn tók ákvörðun um endurbætur á því. Ármann segir að um 20 milljónir hafi verið settar í verkefnið síðustu ár og nú sé talið að um 100 milljónir þurfi til að klára verkið.

Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað.
Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað. mbl.is/Golli

Eina húsið í Kópavogi eftir Guðjón Samúelsson

Ármann segir að á sínum tíma hafi húsið verið í svo slæmu ásigkomulagi að annaðhvort átti að eyðileggja það eða fara í miklar endurbætur. Í ljósi sögu hússins hafi verið ákveðið að endurbyggja það. Er húsið meðal annars það eina eftir Guðjón Samúelsson arkitekt í Kópavogi. Þá segir Ármann að saga hússins sé merkileg. Þar hafi verið holdsveikraspítali og berklahæli, en það voru Hringskonur sem létu byggja húsið á sínum tíma.

Segir Ármann að verði bæjarstjórnarfundir fluttir í húsið væri það til að gera húsinu hátt undir höfði. Er það um 500 fermetrar að stærð og segir hann að ekki væri gert ráð fyrir að vera með aðra starfsemi bæjarins þar. Ákvörðun um þetta hefur þó ekki verið tekin, en á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var kostnaðaráætlun vegna málsins lögð fyrir. Sem fyrr segir hljóðaði hún upp á um 100 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert