Pétur sýknaður af meiðyrðakæru

mbl.is/Hjörtur

Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður og héraðsdómslögmaður, var í morgun sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af kæru vegna meintra meiðandi ummæla en kæran var lögð fram af Kristjáni Snorra Ingólfssyni. Snerist hún um ummæli sem Kristján vildi að dæmd yrðu dauð og ómerk og höfð voru eftir Pétri á fréttavefnum Eyjan.is í nóvember 2014. Snerust þau um ríkisstyrk til Flokks heimilanna vegna alþingiskosninganna 2013 sem Pétur sagði að hefði aldrei skilað sér til flokksins. Sakaði hann Kristján um að hafa stungið fénu í vasann.

Dómsmálið snýst um eftirfarandi ummæli: „Það þarf að greiða skuldir flokksins, en þetta fer bara í einkaneyslu hjá þeim og þeir fara bara á HM í Brasilíu. Þeir eru ekki að borga skuldirnar. Það er ljóst miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja að þeir eru að nota þessa peninga í sína eigin þágu. Þeir settu þetta inn á einkareikning sinn.“ Upphaf málsins má rekja til stofnunar Lýðveldisflokksins árið 2010 undir formennsku Kristjáns. Nafni flokksins var síðan breytt í Flokk heimilanna. Var ný stjórn í kjölfarið skipuð en hún var síðan úrskurðuð ólögmæt af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í maí 2014. Ummæli Péturs féllu í kjölfar þess.

Fékk greiðslur vegna ráðgjafar við sitt eigið félag

Fram kemur meðal annars í dómnum að 1,5 milljónir króna hafi runnið af reikningum Flokks heimilanna og inn á reikning félagsins Helstirnis ehf. þegar ummælin voru látin falla. Kristján hafi gefið þær skýringar fyrir dómi að greiðslan hafi meðal annars verið innt af hendi fyrir persónulega ráðgjöf hans sjálfs til félagsins vegna ágreiningsins sem gerður var um skráningu stjórnar flokksins í fyrirtækjaskrá. Stærstur hluti hennar hafi hins vegar farið í greiðslu lögfræðikostnaðar vegna ágreiningsins. Hversu há sú upphæð hafi verið gat Kristján hins vegar ekki svarað. Fyrir dómi kom fram að Kristján væri eigandi og eini starfsmaður Helstirnis.

Kristján krafðist þess að Pétri yrði gert að sæta refsingu vegna ummælanna og greiða sér eina milljón króna í miskabætur. Veitti hann Pétri 10 daga frest til þess aðsvara bréfi þess efnis en ekkert svar kom hins vegar frá Pétri. Héraðsdómur sýknaði sem fyrr segir Pétur og gerði Kristjáni að greiða honum 650 þúsund krónur i málskotnað. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Pétur hefði leitt nægar líkur að réttmæti ummælanna í ljósi málavaxta. Bendir dómurinn meðal annars á að þannig hafi rúmar 5,3 milljónir króna runnið úr sjóðum flokksins til Kristjáns sem og bróður hans sem laun fyrir störf sem framkvæmdastjóri.

Pólitískir forystumenn verði að sætta sig við gagnrýni

Hvað kröfu um refsingu varðar segir meðal annars í dómi héraðsdóms: „Frjáls skoðanaskipti hafa um langan aldur verið viðurkennd sem einn af undirstöðum lýðræðislegs þjóðfélags. Ekki verður hjá því litið að starfsemi stjórnmálasamtaka gegnir veigamiklu hlutverki að þessu leyti, enda mynda þau mikilvægan vettvang fyrir einstaklinga og hópa til að koma mismunandi viðhorfum á framfæri og gagnrýna önnur. Þessi sjónarmið hafa jafnframt í för með sér að þeir sem taka opinberlega þátt í starfi slíkra samtaka og taka að sér forystuhlutverk í þeim verða að vera reiðubúnir til að sæta því að um störf þeirra sé deilt.“ Og áfram: 

„Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður almennt að gæta varfærni í því að hefta pólitíska umræðu um stjórnarhætti í opinberum stjórnmálasamtökum með beitingu refsikenndra viðurlaga. Í lýðræðissamfélagi verður almennt að gera ráð fyrir því að borgararnir séu sjálfir færir um að taka málefnalega afstöðu til ummæla sem falla í pólitískum deilum og það sé ekki lýðræðisþróun til framdráttar ef þátttakendum í slíkri umræðu er veitt of ríkt svigrúm til að draga pólitíska andstæðinga sína til refsi- og skaðabótaábyrgðar fyrir einstök ummæli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert