Þjónar hvorki hagsmunum bænda né neytenda

Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður SUS.
Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður SUS.

Samband ungra sjálfstæðismanna lýsir sárum vonbrigðum með nýja búvörusamninga ríkisins við bændur í nýrri ályktun. Þar segir að samningarnir muni að óbreyttu kosta skattgreiðendur tugi milljarða króna á næstu árum. „Með samningunum er fest í sessi til tíu ára rándýrt og úr sér gengið landbúnaðarkerfi sem þjónar hvorki hagsmunum bænda né neytenda,“ segir í ályktun SUS.

„Það er með öllu ólíðandi að landbúnaðarráðherra geti með þessum hætti bundið hendur næstu tveggja ríkisstjórna í eins mikilvægu máli og um ræðir. Stuðningur neytenda við kerfið nemur um átján milljörðum króna á ári sem þýðir að með einu pennastriki hefur ráðherra samþykkt skattlagningu, bæði beina og óbeina, til næstu tíu ára upp á 180 milljarða króna.“

Einnig er það sagt ámælisvert að landbúnaðarráðherra hafi kosið að semja „á bak við luktar dyr við sérhagsmunahóp bænda án nokkurrar aðkomu þeirra sem eiga að greiða reikninginn, skattgreiðenda.“

Í ályktuninni kemur fram að allir tapi á núverandi landbúnaðarkerfi og skorað á þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta ekki undan þrýstingi sérhagsmunaafla og berjast gegn búvörusamningunum.

„Samningarnir eru ekki einkamál bænda,“ segir í ályktuninni.  „Allir tapa á núverandi landbúnaðarkerfi. Skattgreiðendur þurfa að borga marga milljarða króna með kerfinu á ári hverju, neytendur greiða hærra verð fyrir landbúnaðarvörur og bændur bera lítið úr býtum.

Ungir sjálfstæðismenn hafa mikla trú á íslenskum landbúnaði og getu hans til þess að lifa af án óeðlilegra styrkja frá ríkisvaldinu. Það yrði bændum ekki síður en öðrum til mikilla hagsbóta til lengri tíma litið ef núverandi kerfi yrði lagt af. Sú umbreyting yrði þó að gerast á þann hátt að bændur fengu svigrúm til þess að bregðast við breyttum aðstæðum.

Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta ekki undan þrýstingi sérhagsmunaaflanna og berjast af alefli gegn búvörusamningunum. Markmiðið ætti að vera að losa íslenskan landbúnað úr viðjum úrelts kerfis styrkja og ríkisafskipta, í samræmi við grunngildi sjálfstæðisstefnunnar. Með samningunum er stigið stórt skref í þveröfuga átt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert