Söfnunin ekki til höfuðs ríkisstjórninni

Kári Stefánsson finnur ekki fyrir auknum viðbrögðum frá stjórnvöldum eftir …
Kári Stefánsson finnur ekki fyrir auknum viðbrögðum frá stjórnvöldum eftir því sem undirskriftunum fjölgar. Ljósmynd/Picasa

„Mér finnst þetta benda til þess að það sé býsna mikill stuðningur í þessu samfélagi,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Rúmlega 80.000 manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista á Endurreisn.is þar sem þess er krafist að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í íslenska heilbrigðiskerfið. Söfnunin hefur nú staðið yfir í tæpar fimm vikur.

„Það er vilji að við aukum fjárfestingu í íslensku heilbrigðiskerfi, og ekki um eitthvað smávegis, ekki bara bæta pínu oggulítið, heldur eigum við að fjárfesta myndarlega í heilbrigðiskerfinu þannig að við getum verið stolt af því,“ segir Kári.

Fyrst og fremst stuðningur við heilbrigðiskerfið

Kári leggur áherslu á að undirskriftarsöfnunni hafi ekki verið komið af stað til höfuðs núverandi ríkisstjórnar.

„Ég lít svo á að þetta sé krafa samfélagsins til hverra þeirra sem sitja í valdastólum. Ég held að það sé eins gott fyrir stjórnarandstöðuflokkana að gera sér grein fyrir að þetta er ekki stuðningur við þá, heldur er þetta stuðningur við heilbrigðiskerfið, sem stjórnarandstöðuflokkarnir upp til hópa hafa vanrækt í gegnum árin líka. Nú vill þjóðin ekki að þetta verði gert lengur og verður spennandi að sjá hvernig þeir sem eru í valdastól, eða ætla sér þangað, taki þessu.“

Geðvonska, fýla og skítkast 

Kári segist ekki finna fyrir auknum viðbrögðum frá stjórnvöldum eftir því sem undirskriftunum fjölgar.

„Ég finn ekki fyrir neinum viðbrögðum frá stjórnvöldum, öðrum en geðvonsku, fýlu og skítkasti. Það stafar af því að menn halda að þetta sé beint að þeim. En ég er alveg viss um að ef ég fæ tækifæri til að setjast niður með stjórnarherrunum er ég viss um að þeirra skoðanir eru ekki ólíkar mínar skoðanir í þessu. Það vilja allir betra heilbrigðiskerfi.“

Að mati Kára á undirskriftarsöfunin að veita ríkisstjórninni stuðning til að flytja fjármuni frá öðrum stöðum yfir í heilbrigðiskerfið.

„Það er ljóst að ef á að fjárfesta meira í heilbrigðiskerfinu verði frjárfest minna í öðru. Það er sjálfsagt mjög erfitt við fjárlagagerð að koma þessu þannig fyrir að allir verði ánægðir. En nú hafa stjórnarherrarnir fengið klára vísbendingu um að fólkið vill að það sé flutt fé úr öðrum málaflokkum yfir í þennan. Þetta er vilji fólksins til að breyta forgangsröðun.“

Fjölmennasta undirskriftarsöfnun sögu lýðveldisins

Aðeins einu sinni áður hafa jafn marg­ir skrifað und­ir und­ir­skrift­arlista hér en það var árið 2009 þegar 83 þúsund mót­mæltu hryðju­verka­lög­gjöf Breta. Það var InD­efence hóp­ur­inn sem söfnuðu þeim und­ir­skrift­um en íbú­ar annarra landa rituðu einnig þar und­ir.

„Þetta er fjölmennasta undirskriftarsöfnun Íslendinga „ever,“ nú þegar. 15.000 þeirra sem skrifuðu undir hryðjuverkalögin voru útlendingar. Þannig að það voru ekki nema 68.000 Íslendingar sem skrifuðu undir það. Þetta er því orðin fjölmennasta undirskriftarsöfnun Íslendinga í sögu lýðveldisins,“ segir Kári, sem segir undirskriftarhópinn myndarlegan.

„Þetta þætti stórt partý og við bara sjáum til hvað gerist. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarherrarnir leggi við hlustirnar.“

Rúmlega 80.000 manns hafa nú ritað nafn sitt á Endurreisn.is …
Rúmlega 80.000 manns hafa nú ritað nafn sitt á Endurreisn.is þar sem þess er krafist að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í íslenska heilbrigðiskerfið. Ljósmynd/Skjáskot af endurreisn.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert