„Þessi skítur er á minni ábyrgð“

Kári Stefánsson hefur beðist afsökunar.
Kári Stefánsson hefur beðist afsökunar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson biðst afsökunar á að hafa kallað Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tveggja ára gamlan offitusjúkling. Ummælin birtust í viðtali á vef tímaritsins Grapevine en Kári baðst afsökunar fyrir stundu í samtali við Helga Seljan í Vikulokunum á Rás 1.

Helgi sagði ummælin hafa farið fyrir brjóstið á mörgum.

„Ekki fór það minna fyrir brjóstið á mér,“ sagði Kári og bætti við að hann skuldaði Sigmundi afsökunarbeiðni fyrir hvernig ummælin komu út.

„Það sem ég vildi sagt hafa, er að einn af kollegum mínum í Íslenskri erfðagreiningu sagði við mig að við Sigmundur værum eins og tveir feitir litlir strákar að rífast um leikfang. En þetta endaði á að vera einhliða árás á mann sem gat ekki brugðið fyrir sig skildi.“

Þá sagði Kári að Sigmundur væri „að mörgu leyti skemmtilegur, skýr og glæsilegur ungur maður“.

„Þessi skítur er á minni ábyrgð og þessa lotu vann forsætisráðherra tíu núll.“

Kári segir hægt að leiða rök að því að Íslendingar …
Kári segir hægt að leiða rök að því að Íslendingar hafi það heilbrigðiskerfi sem þeir sætti sig við.

„Í fullri vinnu við að skammast mín“

Helgi Seljan spurði hann þá hvort hann skammaðist sín fyrir ummælin.

„Ég virðist vera í fullri vinnu við að skammast mín fyrir ótal hluti,“ svaraði Kári. „Við erum að takast á við mjög alvarlegt mál og það er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur að draga þetta niður á það plan að hnýta í menn vegna holdafars þeirra. Ég vona að það hrynji ekki aftur úr mínum munni svona vitleysa.“

Spurður um gang undirskriftasöfnunarinnar sagði Kári að hugmyndin hefði verið að safna nægilegum fjölda til að hafa mögulega áhrif á stjórnvöld.

„En ég held að 60 þúsund nægi einfaldlega ekki til að hreyfa við þessum steinrunnu stjórnvöldum sem nú sitja. Mönnum finnst þetta greinilega ekki nógu brýnt mál til að taka þetta skref og það má leiða að því rök að við íslendingar höfum það heilbrigðiskerfi sem við sættum okkur við. Svo virðist sem Bjarni Ben og Sigmundur Davíð hafi reiknað þetta rétt út, að þeir komist upp með þetta svona.“

Kári vonast til að söfnunin hafi áhrif inni á Alþingi.
Kári vonast til að söfnunin hafi áhrif inni á Alþingi.

Sent söfnuninni fingurinn

Hann sagði söfnunina þó hafa komið af stað umræðu sem hann vonaðist til að hefði áhrif inni á þingi.

„En ég er býsna hræddur um að það þurfi ívið meira til að hafa marktæk áhrif í augnablikinu. Við ætlum að halda þessu opnu út næstu viku og ég held það væri dónaskapur að segja að þetta hefði mistekist. En það er ljóst að stjórnvöld hafa sent söfnuninni fingurinn og því virðist þurfa meira en þetta til að láta þau skjálfa á beinunum.“

Rétt rúmlega 57 þúsund undirskriftir hafa nú safnast á vefsíðu Kára, endurreisn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert