Töldu skipið ekki hafa fært sig nóg

Kleifabergið var sektað vegna þorskveiða í lögsögu Noregs eftir að …
Kleifabergið var sektað vegna þorskveiða í lögsögu Noregs eftir að hlufall ýsu í hollinu fór yfir hámarkshlutfall. Norska strandgæslan taldi skipið ekki hafa fært sig nóg í kjölfarið. mbl.is/Árni Sæberg

Ástæða þess að Kleifabergið RE var sektað fyrir ólöglegar veiðar í norskri landhelgi við Norður-Noreg er skortur á nákvæmum reglum þegar kemur að veiðum á norðuríshafsþorsk og ýsa kemur með í hollum.

Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfélagsins Brims sem á skipið, í samtali við mbl.is. mbl.is greindi frá málinu um helgina og var þar haft eftir norskum miðlum að skipið hafi verið sektað um 350.000 norsk­ar krón­ur, jafn­v­irði 5,2 millj­ón­ir króna, vegna máls­ins.

Fiskistofa veitir sérstakt leyfi til veiða á norðuríshafsþorski í norsku landhelginni og var skipið á þeim veiðum í byrjun febrúar. Ef meira en 30% aflans er ýsa ber skipum að færa sig af svæðinu. Guðmundur segir aftur á móti enga nákvæma skilgreiningu vera á því hvað það feli í sér. Stundum hafi menn fært sig um eina sjómílu, í önnur skipti um fimm mílur og í enn önnur skipti um tíu mílur.

„Norska strandgæslan taldi skipið ekki hafa fært sig nóg,“ segir Guðmundur um þetta tilvik. Segir hann að útgerðin muni í kjölfarið fara yfir verklag með skipstjórum og að um grandvararleysi hafi verið að ræða.

Engir eftirmálar verði vegna málsins af þeirra hálfu. Aðspurður hvort þetta kalli á nánari útlistun í samningi þjóðanna um þessar veiðar segir Guðmundur að íslenskir skipstjórnarmenn þurfi allavega að skilja betur hvað Norðmenn vilji í þessum efnum.

Skipið var ekki staðið að ólöglegu veiðunum á staðnum á fimmtudaginn eins og kom fram í norskum miðlum um helgina. Segir Guðmundur að málið hafi komið upp þegar veiðibækur voru skoðaðar eftir túrinn. „Þetta var skrifað svo nákvæmlega inn,“ segir Guðmundur um hlutfall aflans og staðsetningu að hægt var að gera athugasemdir eftir á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert