Neyðarboð líklega send fyrir villu

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF.
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, lenti rétt fyrir klukkan átta í kvöld eftir að hafa skimað yfir hafið úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum, en til­kynn­ing­ar bárust síðdegis frá skip­um og bát­um um að þau hefðu heyrt sta­f­ræn neyðarboð á metra­bylgju. Voru skip þessi þá stödd ann­ars veg­ar vest­ur af Sauðanesi og hins veg­ar norðaust­ur af Horni.

Frétt mbl.is: Bátar heyrðu neyðarboð

„Flugvélin leitaði yfir allt það svæði sem boðin gætu hugsanlega hafa komið frá,“ segir Guðmundur Rúnar Jónsson varðstjóri hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is.

„En við fundum engin skip sem ekki voru í okkar vöktunarkerfum. Við vitum ekki hvað þetta var en líklegast er þetta einhver bilun í stöð hjá skipi, sem sent hefur þessi boð út í loftið. Þetta er úti á miðunum og var ekki nógu sterkt til að ná inn á strandarstöðvarnar. Það er alla vega einskis saknað.“

Líklega einhvers konar villuboð

Að sögn Guðmundar innihalda boð sem þessi að öllu jöfni svokölluð MMSI-númer, sem eru einkennistölur hvers fjarskiptatækis.

„En þessi skilaboð innihéldu ekki slíkt númer. Það segir okkur að líklega séu þetta einhvers konar villuboð. En það breytir því ekki að við upplýstum þau skip sem eru á miðunum og sendum flugvélina af stað til að skima yfir svæðið. Að svo stöddu, á meðan við fáum ekki frekari upplýsingar inn til okkar, þá teljum við vera fullleitað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert