Höfðar skaðabótamál gegn ríkinu

Ásta Kristín Andrésdóttir eftir að hafa verið sýknuð í Héraðsdómi …
Ásta Kristín Andrésdóttir eftir að hafa verið sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Jón Pétur Jónsson

Lögmaður Ástu Kristínar Andrésdóttur, sem sýknuð var af ákæru um manndráp af gáleysi vegna starfa sinna sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum 9. desember, hefur sent ríkislögmanni bréf þar sem sett er fram krafa um miskabætur vegna málsins sem og bætur vegna tekjumissis.

Þetta staðfestir Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ástu, í samtali við mbl.is en miskabótakrafan hljóðar upp á 4 milljónir króna. Bótakrafan vegna tekjumissis er hins vegar sett fram með fyrirvara um útreikninga en ákæran á hendur Ástu varð meðal annars til þess að hún fékk ekki að vinna kvöld- og næturvaktir sem hafði í för með sér verulegan tekjumissi fyrir hana að sögn Einars.

Við aðalmeðferð málsins greindi Ásta frá því aðspurð að síðustu þrjú ár hefðu verið helvíti fyrir hana. Það hefði kostað hjónabandið hennar og barnið hennar hefði átt mjög erfitt. Hún hefði íhugað að flytja til Noregs og starfa þar sem hjúkrunarfræðingur en ekki getað það þar sem hún hefði ekki getað útskýrt málið fyrir mögulegum nýjum vinnuveitendum. Hún hefði ekki fengið að taka aðrar vaktir en dagvaktir á Landspítalanum og oft langað að deyja vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert