Saksóknari segir aðeins byggt á mati læknisins

Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. mbl.is/Þórður

Niðurstaða endurupptökunefndar að heimila endurupptöku máls manns sem var sakfelldur fyrir að hrista ungbarn árið 2001 byggði eingöngu á mati ensks læknis sem hefur nú verið sviptur lækningaleyfi, að sögn Sigríðar Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara. Skoðað verður hvort embættið bregðist við tíðindunum. 

Greint var frá því í enskum fjölmiðlum í gær að dr. Waney Squier, barnataugalæknir sem hefur borið vitni í fjölda dómsmála sem varða svonefndan barnahristing (e. shaken baby syndrome), hafi verið svipt lækningaleyfi. Forsendur ákvörðunar hæfnisnefndarinnar sem kvað upp úrskurðinn voru sex tilvik þar sem Squier var talin hafa gefið villandi framburð í slíkum dómsmálum. Hún hafi ekki verið hlutlæg og óvilhöll í framburði sínum og hún hafi jafnvel vitnað rangt í rannsóknir og heimildir til að láta virðast sem þær styddu mál hennar. 

Squier hefur talað fyrir minnihlutaskoðun sérfræðinga á barnahristingi og er hún ósammála meirihluta fræðasamfélagsins um að tiltekin einkenni eins og bólgur á heila, blæðingar á milli heila og höfuðkúpu og sjónhimnu bendi til að barni hafi verið veittir áverkar. Hún var dómskvaddur matsmaður í máli Sigurðar Guðmundssonar sem fór fram á, og fékk samþykkta, endurupptöku á máli sínu. Hann var sakfelldur fyrir að hafa valdið dauða ungbarns með því að hrista það árið 2001.

Liggur ekki fyrir hvaða áhrif tíðindin hafa

Ríkissaksóknari benti á í bréfi til endurupptökunefndar 11. febrúar í fyrra að Squier hafi verið sökuð um að gefa vitnisburð í barnahristingsmálum umfram það sem hún hefur þekkingu til og hafa brugðist því hlutverki að vera óhlutdræg í sex dómsmálum sem hún bar vitni í á árunum 2007 til 2010. Hún hafi komið fyrir hæfnisnefnd vegna þessa. Þrátt fyrir það samþykkti endurupptökunefnd beiðnina þá um sumarið.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Sigríður að það liggi ekki fyrir þessa stundina hvaða áhrif niðurstaða hæfnisnefndarinnar ytra hefur á málið. Skoðað verði við embættið hvort og þá hvernig brugðist verði við tíðindunum. Ljóst sé að niðurstaða endurupptökunefndar hafi eingöngu byggt á mati Squier.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sigurðar, sagði við mbl.is í gær að hann tæki niðurstöðu hæfnisnefndarinnar með fyrirvara. Hún ógilti jafnframt ekki allar niðurstöður Squier í öðrum málum.

Einnig byggt á umsögn íslensks réttarmeinafræðings

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, vill ekki tjá sig efnislega um málið en vísar í úrskurð nefndarinnar frá því í fyrra. Niðurstaðan hafi þó byggst á fleiru en niðurstöðu dómskvadds matsmanns eingöngu.

Í úrskurðinum kemur fram að endurupptökunefnd byggði ákvörðun sína meðal annars á umsögn réttarmeinafræðingsins Þóru Steffensen, sem gerði krufningarskýrslu í málinu þegar það var upphaflega rekið fyrir dómstólum, um mat dr. Squier. Þó að Þóra hafi útilokað og vefengt nokkrar kenningar Squier, taldi hún frekari rannsókna þörf á tilgátu hennar um að súrefnisskortur hafi valdið dauða barnsins. 

Endurupptökunefnd fór fram á við ríkissaksóknara að hann léti gera frekari rannsóknir á tilgátum Squier en það var ekki gert. Taldi ríkissaksóknari að Squier hafi ekki gert aðrar dánarorsakir líklegar en þá sem Sigurður var sakfelldur fyrir.

Nú er beðið eftir niðurstöðum erlendra yfirmatsmanna á matsgerðinni sem Squier skilaði í máli Sigurðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert