„Hvað hefðu andstæðingar mínir sagt þá?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir það sérkennilegt að sjá hverjir hafi séð sér færi á að nota fregnir um aflandsfélag í eigu konu hans í pólitískum tilgangi. Þetta kom fram í viðtali hans á Útvarpi Sögu við Arnþrúði Karlsdóttur í dag.

„Það var svolítið sérkennilegt, ég skal viðurkenna það, að sjá hverjir hafa séð sér færi á að nýta sér þetta í pólitískum tilgangi. Fólk kemur fram á völlinn úr þveröfugri átt. Árið 2013 var ég sagður lýðskrumari og að ég væri að búa til væntingar sem ekki væri hægt að standa undir,“ sagði Sigmundur.

„Nú sér fólk ástæðu til að nota það gegn mér að hagsmunum konunnar minnar hafi um leið verið fórnað, líkt og hagsmunum lífeyrissjóðanna, ríkisins og annarra. Þeir, sem alltaf stóðu í vegi fyrir því að það viðamikla verkefni næði fram að ganga, koma nú fram með þessum hætti. Það finnst mér afskaplega skrýtið.“

Auðvelt að gera hluti tortryggilega

Spurður um þau sjónarmið sem heyrst hafi úr ýmsum áttum, að hann hafi verið báðum megin borðsins í samningaviðræðum við kröfuhafa í þrotabúum bankanna, sagði Sigmundur það gjarnan vera vanda stjórmálanna, að auðvelt væri að gera þá hluti tortryggilega, sem varði fjármál og stjórnmálamenn.

„Menn hafa ruglað saman andstæðum, annars vegar þeim sem áttu peninga inni hjá bönkunum, og töpuðu á því, og hins vegar þeim sem keyptu kröfurnar á brunaútsölunni margumræddu.

Konan mín átti inni pening hjá bönkunum fyrir hrunið og fyrir vikið átti hún kröfur á bankana, líkt og margir sem átt höfðu sparifé sem geymt var með þessum hætti,“ sagði Sigmundur.

Skortur á umræðu um hagsmunatengsl

Þá sagði hann áhugavert að bera gagnrýnina saman við þann skort á umræðu sem hafi verið um hagsmunatengsl í stjórnmálum síðustu ár.

„Ef við tökum neyðarlögin sem dæmi, þá hefur enn ekki verið upplýst hversu miklir einkahagsmunir voru þá undir hjá þeim sem settu þau lög. En nú, þegar upplýst er að ég hafi verið að fórna hagsmunum eiginkonu minnar, ekki verja þá, þá er ég gagnrýndur fyrir að hafa ekki upplýst um það.

Í umræðunni sem var árið 2013, þegar ég var gagnrýndur fyrir að taka fé frá þeim sem ættu það með réttu, að ég væri að gera eitthvað ólöglegt, þá var freistandi að benda á, bíddu nú við, hérna er ég að taka leifarnar af eigum konunnar minnar.

En hvað hefðu andstæðingar mínir sagt þá? Að ég væri að nýta þá staðreynd að konan mín hefði tapað fé í hruninu til að hljóta framgang í pólitíkinni?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert